Skoðun

Bjarni, en hvað með vexti, gengi og aðra kostnaðarþætti?

Ole Anton Bieltvedt skrifar
Bjarni Benediktsson skrifar grein í blaðið 1. ágúst sl., þar sem hann fjallar um það, að World Economic Forum hafi í skýrslu sinni um samkeppnishæfni ríkja skipað Sviss í 1. sæti, og, að Svíþjóð og Finnland hafi bæði komizt í efstu 10 sætin.

Svíþjóð var reyndar í 7. sæti og Finnland í því 10. Það má líka nefna, að Noregur var í því 11. og Danmörk í því 12.

Á sama tíma nefnir Bjarni það réttilega, að Íslandi sé aðeins í 28. sæti.

Í þessu sambandi bendir Bjarni á, að launakostnaður á Íslandi sé með því hæsta í OECD. Skín í gegn, að Bjarni vill gera há íslenzk laun ábyrg fyrir því, að Ísland er aftarlega á merinni í samkeppnishæfni.

Reyndar fer hann aðeins út í framleiðni líka, án þess að útskýra á nokkurn hátt, hvernig bæta megi hana. Enda er hún oftast afleiðing annarra þátta, en ekki sjálf orsakavaldur.

Um gengi krónunnar segir Bjarni, að „mörgum þyki gengið fullsterkt“. Hvort það er líka hans skoðun, kemur ekki fram. Vexti nefnir Bjarni engu orði eða húsnæðiskostnað. Gjöld og skattar virðast heldur ekki spila stóra rullu í samkeppnismálum hjá Bjarna.

Nú er Bjarni blessaður fjármálaráðherra landsins, sá sem ætti að vita mest og bezt um þessi mál, og eru þessi einföldu og fátæklegu skrif hans um samkeppnishæfni landsmanna því hvorki gleðileg né gæfuleg. Veit maðurinn ekki betur?

Um launastöðuna er það að segja, að laun eru skv. síðustu alþjóðlegum skýrslum miklu hærri í Sviss, en á Íslandi, eða tæplega 33% hærri.

Meðallaun í Sviss 2016 voru 5.943,00 evrur á mánuði, eða um 740.000 kr., í Noregi voru þau 5.605,00 evrur, 700.000 kr., í Danmörku 4.073,00 evrur, 510.000 kr., og í Svíþjóð 3.879,00 evrur, 485.000 kr.

Á Íslandi voru meðallaun 4.487,00 evrur, eða 560.000 kr., á mánuði.

Þar sem Sviss og Noregur, sem eru í 1. sæti og 11. sæti samkeppnishæfustu þjóða Evrópu, eru með 33% og 25% hærri laun en Ísland, verður skortur á samkeppnishæfni Íslands vart skýrður með háum launum.

Jafn undarlegt og það er, virðist fjármálaráðherra og ýmsir aðrir ráðamenn – svo að ekki sé nú talað um höfuðpaurinn óforbetranlega, seðlabankastjóra – vera blindir fyrir því, að það eru vextirnir, ekki launin, sem eru að sliga íslenzkan atvinnurekstur og samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja.

Beint og óbeint

Beint horfir dæmið svona við: Stýrivextir í Sviss eru -0,75%, í Svíþjóð -0,5%, í evrulöndum 0,0%, í Danmörku 0,05% og í Noregi 0,5%.

Hér á Íslandi eru stýrivextir hins vegar 4,25%. Mörgum sinnum hærri en í þeim löndunum, sem samkeppnishæfust eru.

Eins og við sjáum, eru stýrivextir á Íslandi 5% hærri en í Sviss og 4,75% hærri en í Svíþjóð.

Stýrivextir gilda milli seðlabanka og viðskiptabanka. Vextir og vaxtamunur milli viðskiptabanka og almennings eða fyrirtækja eru miklu hærri.

Ganga má út frá því, að vextir viðskiptabanka hér séu að meðaltali 5% hærri en í þeim löndum sem samkeppnishæfust eru.



Hvað þýðir það?

Húskaupandi kaupir íbúð á 60 milljónir. Fær 50 milljónir lánaðar.

Umframvextir hér, miðað við nefnd lönd, 2,5 milljónir á ári. Þessi húskaupandi er að borga 200.000 kr. meira á mánuði í vexti, en Svisslendingur eða Svíi gerir fyrir sams konar lán.

Það sama gildir um fyrirtæki. Ef við tökum fyrirtæki, sem er með 100 milljónir í reksturs- og fjárfestingarfjármögnun, meðalfyrirtæki, þarf það að borga 5 milljónum meira í vexti á ári, en keppinautar þeirra í nefndum löndum.

Og hvað með óbeinu vaxtaáhrifin?

Þessir hávextir hér leiða auðvitað til þess, að fjármagn leitar í íslenzku krónuna, sem aftur spennir upp og afskræmir gengi hennar, uppdópar hana, með þeim afleiðingum, að hún er minnst 10-20% of sterk, miðað við efnahagsleg skilyrði og það gengi sem væri ef ekki væru hávextir hér.

Mat undirritaðs er, að hið raunverulega efnahagsvandamál, sem leysa verður fljótt og vel, sé glórulausir vextir og uppdópað gengi. Leiðrétting þessa myndi hafa í för með sér meiri kjarabætur en nokkurn verkalýðsleiðtoga dreymir um.

Við kæmumst þá eflaust líka í hóp 10-12 efstu ríkja í samkeppnishæfni, eins og hin Norðurlöndin.

Að lokum verður að minna á það lífs- og starfsumhverfi, sem ríkið skapar. Í Sviss er söluskattur 7,7%, en virðisaukaskatturinn hér er 24%.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×