Erlent

Leita manns í tengslum við morðið á hinum ellefu ára Nicky

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nicky Verstappen var myrtur árið 1998.
Nicky Verstappen var myrtur árið 1998. Mynd/Hollenska lögreglan
Lögregla í Hollandi leitar nú manns sem grunaður er um aðild að morðinu á hinum ellefu ára gamla Nicky Verstappen fyrir tuttugu árum. Tilkynnt var um þetta á blaðamannafundi í hollensku borginni Maastricht í dag.

Verstappen var í sumarbúðum þegar hann hvarf úr tjaldi sínu í ágúst árið 1998. Lík hans fannst degi síðar.

Ekkert hefur spurst til Jos Brech síðan í febrúar.Mynd/hollenska lögreglan
Lögregluyfirvöld lýstu í dag eftir hinum 55 ára Jos Brech sem búsettur var í nágrenni sumarbúðanna þegar Verstappen var myrtur. Brech er grunaður um aðild að málinu en ekkert hefur til hans spurst í nokkra mánuði. Talið er að Brech sé í felum en hann hafði síðast samband við fjölskyldu sína í febrúar og sagðist þá vera í Frakklandi.

Morðið á Verstappen vakti mikinn óhug í Hollandi á sínum tíma. Vísbendingar voru af afar skornum skammti, utan erfðaefnis ókunnugs karlmanns sem fannst á fötum drengsins. Í kjölfarið hrinti lögregla af stað umfangsmestu DNA-rannsókn í sögu Hollands þar sem tekin voru sýni úr fjórtán þúsund karlmönnum. Brech var ekki einn þeirra.

Bertie Verstappen, móðir Nicky Verstappen, á blaðamannafundinum í hollensku borginni Maastricht í dag.Vísir/EPA
Eins og áður sagði bjó Brech í nágrenni sumarbúðanna árið 1998. Í gögnum málsins kemur fram að hann hafi gengið fram hjá vettvangi morðsins þegar rannsókn lögreglu stóð sem hæst, nokkrum dögum eftir að lík Verstappen fannst. Brech var yfirheyrður vegna morðsins en lögregla hafði aðeins talið hann saklausan vegfaranda.

Við eftirgrennslan lögreglu í apríl síðastliðnum kom í ljós að erfðaefnið á fötum Versthappen var úr Brech. Á blaðamannafundi í dag var tilkynnt um að hann væri nú grunaður um aðild að morðinu en um er að ræða fyrstu vendingu í málinu svo árum skiptir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×