Enski boltinn

Íslandsleikurinn í Nice er nú gleymdur og grafinn hjá Roy Hodgson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson í Nice 27. júní 2016.
Roy Hodgson í Nice 27. júní 2016. Vísir/Getty
Roy Hodgson skrifaði í dag undir nýjan langan samning við enska úrvalsdeildarfélagið Crystal Palace.

Nýr samningur Crystal Palace og Roy Hodgson nær til ársins 2020. Endurkoma hans eftir áfallið á móti íslenska landsliðinu er nú fullkomnuð.





Þjálfaraferill Roy Hodgson spannar nú 43 ár og hann hefur nú eflaust sett stefnuna á því að ná 50 árum.

Það leit hinsvegar ekki út fyrir það eftir 2-1 tap enska landsliðsins á móti Íslandi í sextán liða úrslitum á EM í Frakklandi 2016.

Roy Hodgson sagði upp störfum eftir leikinn og var síðan atvinnulaus í langan tíma. Allt benti til þess að hans tími væri liðinn.  

Hodgson fékk hinsvegar tækifærið hjá Crystal Palace þegar Lundúnafélagið var í slæmum málum í ensku úrvalsdeildinni í fyrravetur. Þegar Hodgson mætti á Selhurst Park þá var liðið bæði stigalaust og markalaust eftir fjóra leiki.

Hodgson sýndi snilli sína með því að snúa við blaðinu hjá Crystal Palace og liðið náði á endanum ellefta sæti í deildinni. Liðið tapaði fyrstu sjö leikjum sínum og varð fyrsta liðið sem gerir það og nær að halda sæti sínu.

Íslandsleikurinn frá því í Nice er nú gleymdur og grafinn hjá Roy Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×