Erlent

Hvítir þjóðernissinnar ganga aftur ári eftir Charlottesville

Kjartan Kjartansson skrifar
Háskólanemar og vinstrisinnaðir hópar gengu í Charlottesville í gær í tilefni þess að ár er liðið frá samkomu hægriöfgamanna þar. Mótmæltu þeir hatursboðskap hvítra þjóðernissinna.
Háskólanemar og vinstrisinnaðir hópar gengu í Charlottesville í gær í tilefni þess að ár er liðið frá samkomu hægriöfgamanna þar. Mótmæltu þeir hatursboðskap hvítra þjóðernissinna. Vísir/EPA
Washington-borg í Bandaríkjunum býr sig nú undir göngu hvítra þjóðernissinna á götum borgarinnar í dag á eins árs afmæli óeirðanna í Charlottesville í Virginíu. Nokkrir hópar mótmælenda hvítu þjóðernissinnanna hafa einnig fengið leyfi til að koma saman í borginni í dag.

Ýmsir hópar hægriöfgamanna komu saman í Charlottesville í fyrra. Þar söfnuðust saman hvítir þjóðernissinnar, Ku Klux Klan-liðar og nýnasistar. Þeir gengu meðal annars fylktu liði með kyndla á lofti og hrópuðu slagorð gegn gyðingum kvöldið fyrir formlega samkomu þeirra.

Á viðburðinum sjálfum sló í brýnu á milli öfgamannanna og fólks sem hafði komið til að mótmæla boðskap þeirra. Lögreglan í borginni virtist alls óundirbúin fyrir mótmælin og hafði sig lítið frammi til að skakka leikinn.

Einn öfgamannanna ók bíl sínum niður göngugötu inn í hóp mótmælendanna. Kona á fertugsaldri lést eftir að hafa orðið fyrir bílnum. Maðurinn hefur verið ákærður fyrir manndráp og líkamsárásir. Tveir lögreglumenn sem voru kallaðir út vegna átakanna fórust einnig í þyrluslysi sama dag.

Mikill viðbúnaður í Washington

Fundur öfgamannanna í Washington-borg í dag er kynntur sem framhald á þeim sem haldinn var í Charlottesville. Slagorð hans er „Sameinum hægrið 2“, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Fólkið ætlar að koma saman á Lafayette-torgi nærri Hvíta húsinu klukkan 17:30 að staðartíma.

Lögreglan er sögð hafa mikinn viðbúnað vegna samkomunnar og mótmælanna gegn henni til þess að halda fylkingunum aðskildum.

Trump tísti í gær um andstöðu sína gegn „öllum tegundum rasisma“ í tilefni tímamótanna. Hann var gagnrýndur harðlega fyrir viðbrögð sín við samkomu öfgamannanna og óeirðunum í Charlottesville í fyrra.

Forsetinn þráiðist við að fordæma hvítu þjóðernissinnana og tók á endanum upp hanskann fyrir þá. Sagði hann eftirminnilega að „margt prýðilegt fólk“ hafi verið í hópi bæði öfgamannanna og mótmælenda þeirra.

Margir repúblikanar, sem hafa að mestu leyti staðið með Trump í gegnum súrt og sætt, gagnrýndu forsetann fyrir viðbrögðin við atburðunum í Charlottesville. Nokkrir forsvarsmenn stórfyrirtækja sem sátu í sérstöku ráðgjafaráði forsetans sögðu af sér í mótmælaskyni en Trump leysti ráðið upp í kjölfarið.


Tengdar fréttir

Tekist á um tákn sundraðrar fortíðar

Minnisvarði um Suðurríkin voru miðpunktur mótmæla hvítra þjóðernissinna í Charlottesville um helgina. Tákn Suðurríkjanna hafa lengi verið sundrungarafl í bandarísku samfélagi.

Ku Klux Klan-liði handtekinn vegna Charlottesville

Tveir hvítir þjóðernissinnar hafa verið handteknir vegna ofbeldisfullrar samkomu þeirra í Charlottesville í Bandaríkjunum um miðjan mánuðinn og þess þriðja er leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×