Erlent

Fanginn Lula forsetaframbjóðandi brasilíska Verkamannaflokksins

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla áætlar að um 10 þúsund stuðningsmenn Lula hafi fylkt liði að skrifstofum dómshússins þar sem gögnum um framboð Lula var skilað.
Lögregla áætlar að um 10 þúsund stuðningsmenn Lula hafi fylkt liði að skrifstofum dómshússins þar sem gögnum um framboð Lula var skilað. Vísir/AP
Brasilíski Verkamannaflokkurinn (PT) hefur formlega skilað inn gögnum þar sem fram kemur að forsetinn fyrrverandi, Luis Inacio Lula da Silva, verði frambjóðandi flokksins í komandi forsetakosningum í landinu. Lula afplánar nú fangelsisdóm sem hann hlaut vegna mútuþægni.

Stuðningsmenn Lula hrópuðu slagorð til stuðnings Lula þegar þeir fylgdu fulltrúum Verkamannaflokksins í dómshús í höfuðborginni Brasilíu, nokkrum klukkustundum áður en framboðsfrestur rann út.

BBC  greinir frá því að líklegt þykir að Lula, sem gegndi forsetaembættinu á árunum 2003 til 2011, verði þó meinað að bjóða sig fram. Hann var í janúar dæmdur til tólf ára fangelsisvistar fyrir að þiggja mútur í formi glæsiíbúðar úr hendi verkfræðistofunnar OAS.

Lula hefur alla tíð neitað sök í málinu og segir málið hafa komið til að undirlagi pólitískra andstæðinga sinna til að koma í veg fyrir að hann kæmist aftur til valda.

Bílaþvottur

Forsetinn fyrrverandi var háttsettasti maðurinn til að hljóta dóm eftir umfangsmikla spillingarrannsókn brasilískra yfirvalda sem gekk undir nafninu Bílaþvottur.

Lögregla áætlar að um 10 þúsund stuðningsmenn Lula hafi fylkt liði að skrifstofum dómshússins í dag þar sem gögnum um framboð Lula var skilað.

Brasilískir fjölmiðlar hafa greint frá því að Lula hafi valið Fernando Haddad, fyrrverandi borgarstjóra Sao Paulo, til að stýra Verkamannaflokknum í fjarveru sinni en kosningar fara fram í Brasilíu í október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×