Viðskipti erlent

Bandaríkjastjórn kyndir enn undir viðskiptastríði við Kína

Kjartan Kjartansson skrifar
Verð á bandarískum sojabaunum hefur fallið eftir að Trump lagði innflutningstolla á kínverskar vörur og Kínverjar svöruðu í sömu mynt. Kína er stærsti innflytjandi baunanna.
Verð á bandarískum sojabaunum hefur fallið eftir að Trump lagði innflutningstolla á kínverskar vörur og Kínverjar svöruðu í sömu mynt. Kína er stærsti innflytjandi baunanna. Vísir/EPA
Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta íhugar nú að leggja 25% innflutningstoll á kínverskar vörur að andvirði um 200 milljarða dollara. Kínverjar hafa hótað því að svara í sömu mynt. Hugmyndin sem kemur frá Trump forseta er meira en tvöföldun á hlutfalli tolla sem hann hafði áður lagt til.

Bandaríkin lögðu 25% toll á vörur frá Kína upp á 34 milljarða dollara sem tóku gildi 6. júlí. Kínversk stjórnvöld lögðu tolla á innfluttar vörur frá Bandaríkjunum á móti. Til stóð að Bandaríkin legðu enn frekari tolla á kínverskar vörur að andvirði 50 milljarða dollara í heildina.

Hótanir Trump-stjórnarinnar nú ganga enn lengra og auka hættuna á viðskiptastríði á milli stórveldanna tveggja. Hvíta húsið segir að tollarnir séu svar við því sem það kallar „ósanngjarna viðskiptahætti“ Kínverja sem hafi leitt til þess að það halli á Bandaríkin í viðskiptum ríkjanna, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Þannig gætu innflutningstollar verið lagðar á allt að 6.000 vörutegundir, þar á meðal efni, vefnaðarvöru, steinefni og neytendavörur af ýmsu tagi. Tollarnir gætu tekið gildi í september að loknu umsagnartímabili.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×