Erlent

Tveir látnir í sprengingu á Ítalíu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mikinn reyk lagði frá slysstaðnum.
Mikinn reyk lagði frá slysstaðnum. Vísir/AP
Í það minnsta tveir létu lífið þegar tankbíll fullur af eldsneyti sprakk í dag á vegbrú á þjóðvegi skammt frá ítölsku borginni Bologna.

Samkvæmt lögreglunni á svæðinu særðust allt að 70 manns, þar sem hluti brúarinnar hrundi við sprenginguna. Lögregla telur að árekstur hafi valdið sprengingunni. Meðal hinna særðu voru 11 lögreglumenn sem sinntu viðbragðsstörfum í tengslum við annað bílslys sem orðið hafði á svæðinu. 



Ítalska fréttastofan Sky TG24 greindi frá því að eldurinn sem kviknaði í kjölfar sprengingarinnar hefði dreift úr sér og valdið töluverðum skemmdum á bílum sem lagt var í bílastæðahúsi undir brúnni þar sem sprengingin varð.



Nærstaddir kveðast margir hafa orðið fyrir glerbrotum sem skutust um svæðið þegar bílarnir og rúður í nálægum byggingum sprungu.



Viðbragðsaðilum, lögreglu og slökkviliði, tókst að ráða niðurlögum eldsins sem fylgdi í kjölfar sprengingarinnar um það bil þremur klukkustundum eftir sprenginguna.



Hraðbrautum norðan við Bologna, skömmu frá þar sem sprengingin átti sér stað, hefur verið lokað um óákveðinn tíma. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×