Erlent

Skógareldar í Grikklandi: Ráðherra segir íbúa hafa gert illt verra með því að byggja ólöglega

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gríðarleg eyðilegging blasir við í strandbænum Mati vegna eldanna.
Gríðarleg eyðilegging blasir við í strandbænum Mati vegna eldanna. vísir/getty
Panos Kammenos, varnarmálaráðherra Grikklands, segir að íbúar á því svæði landsins þar sem miklir skógareldar hafa geisað undanfarna daga hafi gert illt verra með því að byggja ólöglega.

Í viðtali við BBC segir Kammenos að það sé glæpur að hafa byggt hús á milli skógi vaxinna svæða þar sem þau hafa lokað flóttaleiðum.

Hann neitar því að stjórnvöld hafi brugðist íbúum á þeim svæðum sem hafa orðið verst úti vegna eldanna en Kammenos heimsótti hamfarasvæðið í dag. Að minnsta kosti 83 hafa látið lífið í eldunum en óttast er að mun fleiri muni finnast látnir þar sem tuga einstaklinga er enn saknað.

Að minnsta kosti 83 hafa látið lífið í eldunum og tuga er enn saknað.vísir/ap

„Þú lést fólk brenna út af engu“

Strandbærinn Mati hefur orðið hvað verst úti í eldunum en íbúar þar hafa lýst aðfarnótt þriðjudagsins, þegar eldarnir fóru yfir, sem helvíti á jörðu. Kammenos heimsótti bæinn og fékk að heyra það frá íbúum sem sökuðu hann og ríkisstjórnina um að hafa yfirgefið þau í eldunum.

„Þú lést fólk brenna út af engu. Þú skildir okkur eftir upp á náð og miskunn Guðs,“ sagði ein kona við ráðherrann sem var í fylgd með bæjarstjóranum og foringja gríska hersins.

Annar íbúi gagnrýndi það að íbúum hafði verið ráðlagt að flýja út í sjó þegar flestir eldri borgarar í Mati hefðu aldrei geta komist að sjónum.

Á þessari gervihnattamynd frá Copernicus sést vel hversu stórt svæði varð eldinum að bráð og að meira en helmingur þess var íbúðabyggð.copernicus

Helmingurinn af því landi sem varð eldinum að bráð íbúðabyggð

Kammenos hafnaði öllum ásökunum um að yfirvöld hefðu ekki gert sitt til að vernda borgarana heldur sagði að það sem íbúarnir hefðu sjálfir gert hefði lokað vegum að ströndinni.

„Þetta eru glæpir frá fortíðinni. Meirihluti þessara eigna var byggður í leyfisleysi,“ sagði ráðherrann.

Gervihnattamyndir af svæðinu sýna hversu gríðarlega stórt svæði varð eldunum að bráð en meira en helmingurinn af þeim tæplega 5.200 hekturum sem eldurinn fór yfir var íbúðabyggð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×