Erlent

Blóðugasti dagur mótmælanna í Níkaragva

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd af Ortega forseta með orðunum eftirlýstur morðingi.
Mynd af Ortega forseta með orðunum eftirlýstur morðingi. Vísir/EPA
Félagasamtök í Níkaragva segja að 38 manns hafi fallið á sunnudag. Dagurinn sé sá blóðugasti frá því að mótmæli gegn ríkisstjórn Daníels Ortega hófust í apríl. Af þeim var 31 mótmælandi, fjórir lögreglumenn og þrír stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur þetta eftir mannréttindasamtökunum Níkaragvönsku mannréttindamiðstöðinni Cenidh. Átök á milli mótmælenda og öryggissveita hafa einkennt mótmælin og hefur fjöldi fólks látið lífið. Alls er talið að um 300 manns hafi fallið í mótmælum fram að þessu.

Fólkið féll á þremur stöðum á sunnudag, flestir í bæjunum Diriamba og Jinotepe, þegar lögreglan og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar reyndu að ryðja burt vegartálmum sem mótmælendurnir settu upp.

Mótmælin gegn ríkisstjórn Ortega hófust eftir að ríkisstjórn hans tilkynnti um breytingar á almannatryggingakerfi landsins um miðjan apríl. Helsta krafa mótmælendanna er að Ortega segi af sér en hann hefur verið sakaður um spillingu og einræðistilburði.

  


Tengdar fréttir

Molnar undan stuðningi við forseta Níkaragva

Herinn, kirkjan og frammámenn í viðskiptalífinu hafa fjarlægt sig ríkisstjórn Daniels Ortega forseta eftir harkaleg viðbrögð hennar við mótmælaöldu sem geisar í Níkaragva.

Vopnahlé í Níkaragva

Deilur hafa staðið yfir í Mið-Ameríkuríkinu Níkaragva síðan í apríl síðastliðnum. Nú hafa stríðandi fylkingar samið um vopnahlé




Fleiri fréttir

Sjá meira


×