Erlent

Björgunarmaður vandar Musk ekki kveðjurnar: „Hann má stinga kafbátnum sínum þar sem hann verkjar“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kafarar gera sig tilbúna í björgunaraðgerðir í Tælandi. Fótboltastrákunum og þjálfara þeirra hefur nú öllum verið bjargað.
Kafarar gera sig tilbúna í björgunaraðgerðir í Tælandi. Fótboltastrákunum og þjálfara þeirra hefur nú öllum verið bjargað. Vísir/Getty
Breskur kafari sem tók þátt í björgun tælensku fótboltastrákanna og þjálfara þeirra vandar uppfinningamanninum Elon Musk ekki kveðjurnar í nýju viðtali. Hann segir kafbátinn, sem Musk lét hanna í von um að aðstoða við björgunina, alltaf hafa verið vitagagnslausan.

Sjá einnig: Fótboltastrákarnir útskrifast á fimmtudag

Kafarinn, Vern Unsworth, er sagður hafa leikið lykilhlutverk í björgunaraðgerðunum í Tælandi sem vakið hafa gríðarlega athygli heimsbyggðarinnar. Hann var inntur eftir viðbrögðum við kafbáti Musks í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN.

„Hann má stinga kafbátnum sínum þar sem hann verkjar. Það voru engar líkur á því að hann myndi virka. Hann [Musk] gerði sér enga grein fyrir því hvernig umhorfs er í göngunum inn í hellinn.“

Þá sagði Unsworth kafbátinn alltof stóran og stífan til að komast um þrönga ganga hellisins. „Hann hefði ekki komist fyrstu 50 metrana inn í hellinn,“ var haft eftir kafaranum. Þegar honum var bent á að Musk hefði sjálfur komist inn í hellinn yppti Unsworth öxlum og sagði upfinningamanninn nær strax hafa verið beðinn um að yfirgefa svæðið.

Greint var frá því þegar björgunaraðgerðir stóðu sem hæst að Musk hafi látið verkfræðinga sem starfa á vefum fyrirtækja hans hanna sérútbútið hylki. Var hugmyndin að hægt yrði að koma drengjunum fyrir í hylkinu svo þeir þyrftu ekki að kafa úr hellinum. Kafararnir gætu síðan dregið hylkið á eftir sér. Að endingu var ekki unnt að nota kafbátinn.

Musk var ýmist hylltur eða gagnrýndur harðlega fyrir tilraunir sínar. Hann var til að mynda sakaður að hafa ætlað sér að nýta þá miklu athygli sem verið hefur á björgunaraðgerðunum í eigin þágu.


Tengdar fréttir

Sérútbúið hylki á leið frá Elon Musk til Taílands

Elon Musk, eigandi SpaceX og Tesla, hefur sent lítinn kafbát til Taílands sem mögulegt er að verði notaðir í björgunaraðgerðum vegna þeirra níu sem eftir sitja í hellinum í Chiang Rai. CNN greinir frá.

Fótboltastrákarnir útskrifast á fimmtudag

Taílensku fótboltastrákarnir sem festust ásamt helli með þjálfara sínum hafa frá björgun verið á Chiang Rai sjúkrahúsinu. Stefnt er að því að þeir yfirgefi það á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×