Erlent

Pútín telur eitrunarásakanir tilhæfulausar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rússlandsforseti segir ekkert til í því að þjóð sín standi á bakvið eiturefnaárásir á breskri grundu.
Rússlandsforseti segir ekkert til í því að þjóð sín standi á bakvið eiturefnaárásir á breskri grundu. Vísir/getty
Vladimír Pútín þvertekur fyrir það að yfirvöld í Rússlandi standi á bakvið árásir á fjóra einstaklinga með taugaeitrinu Novichok í Bretlandi.

Hann segir ásakanir breskra yfirvalda um að Rússar beri ábyrgð á árásunum með öllu tilhæfulausar. Þetta sagði Pútín í samtali við blaðamann Fox News í gær. Hann sagði að yfirvöld í Moskvu hefðu óskað eftir því að sjá sönnunargögn en yfirvöld í Bretlandi hafi ekki orðið við þeirri bón. „Það vill enginn kanna þetta,“ sagði Pútín.

„Það eina sem fáum eru þessar dularfullu ásakanir, af hverju þarf þetta að vera svona? Af hverju þarf að grafa undan sambandi okkar [Bretlands og Rússlands] með þessu máli?“ bætti forsetinn við.

Sjá einnig: Segir Mueller halda sambandi Bandaríkjanna og Rússlands í gíslingu

Um er að ræða tvær árásir. Annars vegar á Sergei Skrípal, rússneskan fyrrverandi njósnara og dóttur hans Júlíu sem komust bæði lífs af eftir árás með eitrinu í mars. Hins vegar var um að ræða parið Charlie Rowley og Dawn Sturgess sem komust í snertingu við eitrið í lok júní, en Sturgess lést viku síðar.

Breska lögreglan rannsakar nú hvort að eitrið sem notað var í árásunum tveimur hafi komið úr sömu löguninni. Rowley liggur enn þungt haldinn á sjúkrahúsi en bróðir hans greindi frá því í samtali við breska miðla að hann hafi veikst eftir að hafa tekið upp ilmvatnsflösku.

„Hvernig flaska var þetta? Hvert var efnasambandið í henni? Hver er með hana?“ spurði Pútín í viðtalinu í gærkvöldi.


Tengdar fréttir

Sökudólgar enn ófundnir

Lögregluyfirvöldum í Bretlandi hefur ekki enn tekist að finna út úr því hverjir sökudólgarnir í tveimur eiturefnaárásum á Salisbury-svæðinu eru og þá geta þau heldur ekki ábyrgst að meira af eitrinu, novichok, sé ekki að finna þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×