Erlent

Náði myndbandi af augnablikinu þegar fótboltastrákarnir fundust

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem kafarinn tók þegar drengirnir fundust í hellinum.
Skjáskot úr myndbandinu sem kafarinn tók þegar drengirnir fundust í hellinum.
Breskur kafari sem sendur var til Tælands til að taka þátt í leitinni að fótboltastrákunum tólf og þjálfara þeirra sem setið hafa fastir í helli í níu daga náði myndbandi af augnablikinu þegar strákarnir og þjálfarinn fundust á lífi í dag.

Myndbandið, sem er ansi magnað, er birt á Facebook-síðu tælenska sjóhersins, en þar heyrist kafarinn spyrja hversu margir þeir eru.

„Þrettán,“ heyrist svarað.

„Þrettán? Frábært,“ svarar kafarinn.

Þá heyrist hann segja hópnum að fleiri björgunarmenn séu á leiðinni og einn af strákunum biður kafarann um að segja björgunarmönnunum að þeir séu svangir.





Strákarnir og þjálfari þeirra eru heilir á húfi að sögn yfirvalda en þeir festust í hellinum vegna úrhellisringingar. Búið er að dæla tíu þúsund lítrum af vatni úr hellinum og verður því haldið áfram á meðan læknar og hjúkrunarfræðingar verða sendir inn í hellinn til að athuga með líðan drengjanna og þjálfarans.

Ef læknarnir meta það sem svo að drengirnir og þjálfarinn séu í nógu góðu líkamlegu ástandi til að vera færðir út úr hellinum þá verður það gert.

Meira en þúsund manns hafa tekið þátt í leitinni að strákunum og þjálfaranum.


Tengdar fréttir

600 metrum frá fótboltadrengjunum

Kafarar úr tælenska sjóhernum nálgast nú svæði þar sem talið er að tólf tælenskir strákar séu fastir ásamt fótboltaþjálfara sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×