Erlent

Sviðsstjóri köfunar hjá Gæslunni: Ekki aðstæður sem vanir kafarar færu alla jafna í nema með sérþjálfun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nýtt myndband af strákunum innan úr hellinum var birt í dag.
Nýtt myndband af strákunum innan úr hellinum var birt í dag. vísir/ap
Jónas Karl Þorvaldsson, sviðsstjóri köfunar hjá Landhelgisgæslunni, segir að aðstæðurnar í hellinum í Taílandi þar sem fótboltastrákarnir tólf og þjálfarinn þeirra sitja fastir séu erfiðar. Það gæti því reynst nokkuð erfitt að koma drengjunum úr hellinum með því að kenna þeim köfun.

„Það er eitt að kenna óvönum að kafa en svo eru aðstæðurnar sem þeir eru í, þetta er lokað rými og myrkur og straumar þannig að þetta eru ekki aðstæður sem að vanir kafarar færu í alla jafna nema þeir hafi þá einhverja sérþjálfun eða menntun í þetta,“ sagði Jónas Karl í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Aðstæðurnar í hellinum eru þannig að aðeins er hægt að komast út í eina átt.

„Það er ekkert loft, þú ferð ekkert upp, þú verður að fara út.“

Að sögn Jónasar er misjafnt hvernig fólk höndlar það að kafa í fyrsta sinn. Það verði ekki auðvelt að koma drengjunum út úr hellinum með köfun en Jónas segir það gerlegt ef rétt er staðið að málum.

Spurður að því hvort að straumarnir við hellinn séu varhugaverðir segir Jónas svo vera.

„Já, í raun alltaf þegar þú ert lokaður inn í rými þar sem þú ert bara með eina útgönguleið og ert með straum á móti þér eða á eftir þér þá er alltaf erfitt að berjast við strauminn og hafa stjórn á sér í því. Eins upp á það að festa þig ekki einhvers staðar í grjóti.“

Nýtt myndband innan úr hellinum var birt í dag. Heilbrigðisstarfsmenn sjást gera að sárum drengjanna og þá kynna þeir sig líka fyrir myndavélinni. Einn þeirra segir að hann hafi það gott og annar þakkar öllum þeim sem hafa fylgst með leitinni og björgunaraðgerðum.

Greint var frá því í fjölmiðlum í dag að reyna á að kenna drengjunum köfun svo að þeir komist út úr hellinum. Von er á úrhellisrigningu á svæðinu og þá gætu björgunaraðstæður enn erfiðari en þær eru nú; drengirnir gætu setið fastir í hellinum í marga mánuði en einnig óttast menn að vatn taki að flæða inn á svæðið þar sem þeir eru.






Tengdar fréttir

Ný leið til strákanna í hellinum mögulega fundin

Ríkisstjóri Chiang Rai-héraðs í Taílandi segir nú að búið að sé að finna nýtt hellisop sem kunni að leiða til staðarins þar sem drengirnir hafa nú verið fastir í ellefu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×