Erlent

Ætla að reyna að koma strákunum út næsta sólarhringinn

Atli Ísleifsson skrifar
Unnið er að því að dæla vatni upp úr helliskerfinu.
Unnið er að því að dæla vatni upp úr helliskerfinu. Vísir/EPA
Vonast er til að hægt verði að ná taílensku strákunum tólf og þjálfara þeirra út úr Tham Luang-hellakerfinu í héraðinu Chuang Rai í dag eða á morgun. Aðstæður til björgunar hafa verið mjög erfiðar vegna yfirstandandi rigningatímabils og vonast björgunarlið til að hægt verði að hafa hraðar hendur og ná þeim út áður en bætir í rigningu á morgun.

„Markmiðið er að ná strákunum út í dag eða á morgun“ segir Sanpon Kaeeri hjá taílenska björgunarliðinu í samtali fréttamann NRK sem er á staðnum. Hann segir mjög marga nú vinna að því að dæla vatni upp úr hellakerfinu.

Drengirnir tólf og þjálfari þeirra hafa verið fastir í hellinum í tólf daga, en þeir fundust á mánudag eftir níu daga leit.

Um þúsund manns vinna nú að því að ná drengjunum út, meðal annars hermenn, björgunarsveitir og munkar.

NRK greinir frá því að við núverandi aðstæður myndi taka ellefu tíma að ná hverjum og einum dreng út. Bæti í rigningu myndi sá tímarammi breytast.

Héraðsstjórinn Narongsak Osatanakorn segist hafa mestar áhyggjur af veðrinu. Hann hefur beðið yfirmann sjóhersins, sem ábyrgð ber á björgunaraðgerðum, að leggja mat á hvort mögulegt sé að bjarga drengjunum í dag.

„Þeir munu ákvarða það hvort við getum tekið þá áhættu,“ segir Osatanakorn, sem áður hefur sagt að ekki yrði reynt að koma drengjunum út ef áhættan er talin of mikil.

Drengirnir eru á aldrinum ellefu til sextán ára. Þeir héldu inn í hellinn 23. júní þegar hann var þurr en festust þegar skyndilega skall á með mikilli rigningu sem lokaði útgönguleiðum. Breskir kafarar fundu svo drengina um fjórum kílómetrum frá hellismunnanum á mánudaginn.

Uppfært kl 11:28:NRK  greinir frá því nú klukkan 11 hafi verið byrjað að flytja björgunarvesti inn í hellinn til strákanna. Fyrst eigi að koma yngsta drengnum út, en sá er ellefu ára að aldri.


Tengdar fréttir

Ný leið til strákanna í hellinum mögulega fundin

Ríkisstjóri Chiang Rai-héraðs í Taílandi segir nú að búið að sé að finna nýtt hellisop sem kunni að leiða til staðarins þar sem drengirnir hafa nú verið fastir í ellefu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×