Erlent

Kafari lést í hellinum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Um 1000 manns hafa komið að aðgerðinni.
Um 1000 manns hafa komið að aðgerðinni. Vísir/afp
Kafari, sem eitt sinn starfaði fyrir tælenska sjóherinn, lést í nótt við björgunaraðgerðirnar þar sem reynt er að ná 12 drengjum og fótboltaþjálfaranum þeirra úr helli í norðurhluta Tælands.

Maðurinn, hinn 38 ára gamli Saman Gunan, er sagður hafa misst meðvitund og drukknað þegar hann var á leið aftur út úr hellinum. Hann hafði verið að flytja súrefniskúta til drengjanna og segir talsmaður björgunaraðgerðarinnar að svo virðist sem kafarinn hafi ekki haft nógu mikið súrefni handa sjálfum sér á bakaleiðinni.

Öðrum kafara hafi tekist að draga hann úr hellinum en endurlífgunartilraunir hafi ekki borið árangur. Gunan var búinn að segja skilið við sjóherinn en sneri aftur til að taka þátt í aðgerðinni, sem staðið hefur yfir í næstum tvær vikur.

Sjá einnig: Sviðsstjóri köfunar hjá Gæslunni: Ekki aðstæður sem vanir kafarar færu alla jafna í nema með sérþjálfun

Um 1000 manns hafa komið að aðgerðinni, þeirra á meðal eru þrautþjálfaðir kafarar, hermenn og sjálfboðaliðar. Talsmaður aðgerðarinnar segir að andlát Gunan minni menn á hversu hættuleg björgunin er. Engu að síður hafi hópurinn ekki misst trúna og ætlar sér að halda ótrauður áfram.

Nú sé reynt að koma súrefniskútum til drengjanna þar sem tugir björgunarsveitarmanna hafa gengið hratt á súrefnisbirgðirnar í hellinum. Þá er jafnframt unnið að því að leiða lögn inn í hellishvelfinguna þar sem drengirnir hírast sem nota megi til að flytja súrefni til hópsins.

Björgunarsveitirnar höfðu vonast til að koma drengjunum út í dag, en gert er ráð fyrir mikilli rigningu á svæðinu um helgina.


Tengdar fréttir

Ætla að reyna að koma strákunum út næsta sólarhringinn

Starfsmaður björgunarliðs í Taílandi segir að vonast sé til að að hægt verði að ná taílensku strákunum tólf og þjálfara þeirra út úr Tham Luang-hellakerfinu í héraðinu Chuang Rai í dag eða á morgun.

Heimt úr helju í fjölmiðlafári

Nokkur dæmi eru í nútímasögunni um að fólk hafi verið heimt úr helju í fjölmiðlafári eins og því sem ríkt hefur vegna drengjanna í Taílandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×