Erlent

WOW biðst afsökunar á 27 tíma seinkun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tveir starfsmenn tóku við spurningum um 200 farþega.
Tveir starfsmenn tóku við spurningum um 200 farþega. Skjáskot
Farþegar á leið til Íslands með WOW air þurftu að hírast á alþjóðaflugvellinum í Cincinnati í 27 klukkustundir í upphafi vikurnnar. Flugfélagið hefur beðist afsökunar á seinkuninni sem rakin er til „ófyrirséðra vandkvæða“ á afhendingu hinna ýmsu gagna til bandarískra flugstjórnaryfirvalda.

Um 200 farþegar ætluðu sér að ferðast með flugi #144 til Íslands, sem fara átti í loftið klukkan 01:00 aðfaranótt þriðjudags frá CVG-flugvellinum í Cincinnati. Þegar klukkan var farin að ganga sex fóru þó farþegar að ókyrrast. Þeir settu sig í samband við þarlenda miðla og tjáðu þeim að þeir hefðu ekki aðeins verið búnir að bíða í fjórar klukkustundir - heldur hafi þeim verið gert að bíða inni í flugvélinni eða á landganginum.

Þeim hafi verið bannað að fara inn í sjálfa flugstöðina og þurftu því að reiða sig á salerni vélarinnar og matinn sem var þar um borð. Hitinn í vélinni er sagður hafa verið nánast óbærilegur og rakinn ekki hjálpað til.

Farþegar segjast ekki hafa getað hlaðið raftækin sín og aðeins fengið vatn og súkkulaði frá starfsmönnum flugfélagsins. Áhöfn vélarinnar hafi tjáð þeim að WOW hafi láðst að skila inn réttu pappírunum áður en hinn lögbundni hvíldartími áhafnarinnar hófst. Farþegar lýsa biðinni sem martröð, margir hverjir hafi setið fastir í vélinni í rúmar sex klukkustundir meðan hún stóð á flugbrautinni.

Í yfirlýsingu frá flugfélaginu biðst WOW innilegrar afsökunar. Þar kemur jafnframt fram að farþegunum hafi boðist matarinneign í flugstöðinni, hótelgisting og endurgreiðsla á fargjaldinu. Flestir farþeganna ætluðu sér að fljúga áfram til Evrópu. Talið er að þeir hafi nánast allir misst af flugferðum sínum vegna seinkunarinnar.

Í samtali við Fox19 Now segir talsmaður CVG að hann skilji ekki hvers vegna farþegunum hafi verið meinað að fara inn í flugstöðina. Hvergi sé minnst á slíkt bann í starfsreglum flugvallarins. Fulltrúar CVG og WOW Air muni funda um málið og sjá til þess að þessi misskilningur komi ekki upp aftur.

Hér að neðan má sjá frétt Fox19 Now um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×