Erlent

Brotnaði niður í beinni vegna frétta um aðskilnað ungabarna frá foreldrum sínum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Maddow baðst síðar afsökunar á því að tilfinningarnar hefðu borði hana ofurliði.
Maddow baðst síðar afsökunar á því að tilfinningarnar hefðu borði hana ofurliði. Skjáskot
Fréttir af aðskilnaði barna og foreldra á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó hafa vakið mikinn óhug og hreyft við mörgum síðustu daga. Ein þeirra er sjónvarps- og fréttakonan Rachel Maddow, sem brotnaði niður í beinni útsendingu í gærkvöldi þegar hún reyndi að lesa nýja frétt af málinu.

Maddow stýrir The Rachel Maddow Show á MSNBC og í miðri útsendingu fékk hún nýja frétt frá AP fréttastofunni. Þar sagði að ungabörn og önnur ung börn væru aðskilin frá foreldrum sínum í Texas og að þeim væri haldið í þremur skýlum sem væru sérstaklega ætluð börnum á viðkvæmum aldri.

Fréttin reyndist Maddow, sem hefur starfað í fjölmiðlum frá árinu 1999, ofviða. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir hætti hún að reyna að lesa fréttina, kvaddi áhorfendur og sendi boltann yfir til annars fréttamanns.

Maddow baðst síðar afsökunar á atvikinu á Twitter síðu sinni. Hún sagðist hafa „misst það í smá stund“ og að það væri hennar starf að geta í það minnsta talað þegar hún væri í sjónvarpi. Þar rakti hún fréttina sem hún gat ekki lesið fyrr um kvöldið.

Í henni segir heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem hafi heimsótt flóttamannabúðirnar í Rio Grande dalnum hafi lýst leikherbergjum fullum af grátandi börnum á leikskólaaldri. Til standi að opna fjórðu búðirnar undir hundruð ungra barna í Houston, en yfirvöld í borginni hafa hafnað þeim áformum. 

Meira en tvö þúsund börn hafa verið tekin frá foreldrum sínum síðan stjórnvöld í Bandaríkjunum tilkynntu um herta innflytjendastefnu í maí. Stefnan hefur vakið mikla reiði um allan heim. Fréttastofur í Bandaríkjunum hafa meðal annars komist yfir upptökur af grátandi börnum sem eru í haldi bandarískra yfirvalda í flóttamannabúðunum, sem öskra á foreldra sína af veikum mætti.

Mörgum þykir Maddow hafa með þessu lýst afstöðu þjóðarinnar til flóttamannabúðanna, en rúmlega 60 prósent Bandaríkjamanna eru mótfallnir aðgerðunum.


Tengdar fréttir

Funda vegna stefnu Trumps

Óhuggulegt er að börn séu notuð sem skiptimynt í deilum um landamæravegg forsetans segja nefndarmenn í utanríkismálanefnd. Ráðherra segir afstöðu Íslands vera skýra og henni verði komið á framfæri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×