Erlent

Hrakin út af mexíkóskum veitingastað eftir að hafa komið aðskilnaðarstefnunni í framkvæmd

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kirstjen Nielsen, ráðherra heimavarnarmála í Bandaríkjunum.
Kirstjen Nielsen, ráðherra heimavarnarmála í Bandaríkjunum. Vísir/Getty
Mótmælendur gerðu hróp að ráðherra heimavarnarmála í Bandaríkjunum, Kirstjen Nielsen, í gær þar sem hún sat og borðaði á mexíkóskum veitingastað. Sem heimavarnarmálaráðherra framfylgdi Nielsen aðskilnaðarstefnu Bandaríkjastjórnar í innflytjendamálum, þ.e. að aðskilja börn ólöglegra innflytjenda frá foreldrum sínum við landamærin milli Bandaríkjanna og Mexíkó þegar fjölskyldurnar koma inn í landið.

Mótmælendurnir kenna sig við samtökin The Metro DC Democratic Socialists of America og lýstu samtökin yfir ábyrgð á mótmælunum á Facebook-síðu sinni. Myndband af mótmælunum má sjá hér að neðan.

„Skömm!“, „Hvernig sefurðu á næturnar?“, „Heyrirðu í börnunum gráta?“ og „Ert þú ekki móðir líka?“ var á meðal þess sem mótmælendur kölluðu að Nielsen þar sem hún sat og borðaði kvöldmat á mexíkóskum veitingastað í grennd við Hvíta húsið í gær.



„Við erum meðvituð um kaldhæðnina,“ sagði enn fremur í téðri yfirlýsingu frá samtökunum en flestar innflytjendafjölskyldur, sem stefnu Bandaríkjastjórnar hefur verið beitt á undanfarnar vikur, eru frá Mexíkó.

Stefna Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og ríkisstjórnar hans er afar óvinsæl í Bandaríkjunum og hefur einnig vakið mikla reiði víða um heim. Sjálfur hrósaði forsetinn Nielsen í hástert í vikunni fyrir að taka upp hanskann fyrir aðskilnaðarstefnuna af mikilli lagni á blaðamannafundi í vikunni. 

Aðstoðarmaður Nielsen tísti um atvikið í gær og sagði Nielsen þar hafa veitt litlum hópi mótmælenda áheyrn. Þessir mótmælendur hefðu jafnframt viðrað áhyggjur sínar af innflytjendalöggjöfinni, sömu áhyggjur og Nielsen hefði af stöðu mála.

Þá hafa fréttastofur ytra meðal annars komist yfir upptökur af grátandi börnum, í haldi bandarískra yfirvalda í flóttamannabúðum, sem öskra á foreldra sína af veikum mætti. Ásamt myndum af aðbúnaði barnanna, sem eru meðal annars geymd í gömlum vöruskemmum.


Tengdar fréttir

Funda vegna stefnu Trumps

Óhuggulegt er að börn séu notuð sem skiptimynt í deilum um landamæravegg forsetans segja nefndarmenn í utanríkismálanefnd. Ráðherra segir afstöðu Íslands vera skýra og henni verði komið á framfæri.

New York í mál við Bandaríkjastjórn

New York ríki ætlar að höfða mál gegn Bandaríkjastjórn meðal annars á grundvelli þess að hún hafi brotið í bága við stjórnarskrá landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×