Erlent

Trump bannar aðskilnað barna frá foreldrum sínum

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump við undirritun tilskipunarinnar í kvöld, ásamt Kristjen Nielsen heimavarnaráðherra Bandaríkjanna og Mike Pence varaforseta.
Donald Trump við undirritun tilskipunarinnar í kvöld, ásamt Kristjen Nielsen heimavarnaráðherra Bandaríkjanna og Mike Pence varaforseta. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur skrifað undir tilskipun sem stöðvar aðskilnað barna frá foreldrum sínum við landamæri landsins. Hann tilkynnti fyrr í dag að hann myndi grípa til aðgerða til að stöðva þá stefnu um að aðskilja börn þeirra sem reyna að komast ólöglega yfir landamærin frá foreldrum sínum, en hún hefur vakið mikla reiði.

Sjá einnig: Trump ætlar að „skrifa undir eitthvað“ varðandi aðskilnað barna frá foreldrum sínum

Við undirskrift tilskipunarinnar sagði Trump að þrátt fyrir þetta myndi hann ekki draga úr hörku þegar kemur að meðhöndlun mála þeirra sem reyna að komast ólöglega yfir landamærin.

„Ég tel þetta vera mikilvæga tilskipun. Hún snýst um að halda fjölskyldum saman á sama tíma og tryggjum það að við höfum öflug og sterk landamæri, og öryggisgæsla á landamærunum verði jafn sterk, ef ekki sterkari, en áður.“, sagði Trump eftir undirritunina nú í kvöld.

„Þetta mun gleðja marga.“, bætti hann svo við.

Þessi tilskipun forsetans í kvöld skýtur skökku við fyrri ummæli Hvíta hússins, en áður fyrr hafði forsetinn og starfsfólk hans sagst vera valdalaus þegar kæmi að þessu máli. Lögin væru einfaldlega svona og þeim bæri að framfylgja þeim, en aðgerðarleysi forsetans vakti reiði margra og var það gagnrýnt frá báðum áttum stjórnmálanna. 

Skorað var á íslensk stjórnvöld að mótmæla stefnunni opinberlega og sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, að stefnan væri ógeðfelld. Þá óskaði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, eftir fundi í utanríkismálanefnd vegna málsins. 

Þá sögðu fulltrúar ríkisstjórnarinnar í samtali við New York Times að börn og foreldrar sem hafa nú þegar verið aðskilin yrðu ekki sameinuð þegar í stað, heldur yrðu þau áfram í haldi á meðan foreldrar þeirra biðu úrvinnslu eigin mála.


Tengdar fréttir

Funda vegna stefnu Trumps

Óhuggulegt er að börn séu notuð sem skiptimynt í deilum um landamæravegg forsetans segja nefndarmenn í utanríkismálanefnd. Ráðherra segir afstöðu Íslands vera skýra og henni verði komið á framfæri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×