Fótbolti

Aron spilaði í sigri

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Aron lék með Fjölni áður en hann hélt í atvinnumennsku í Noregi
Aron lék með Fjölni áður en hann hélt í atvinnumennsku í Noregi vísir/vilhelm
Sex leikir voru á dagskrá norsku úrvalsdeildarinnar í dag en aðeins einn íslenskur leikmaður kom við sögu í leikjum dagsins. 

Aron Sigurðarson spilaði allan leikinn þegar Start vann mikilvægan sigur á Kristiansund. Staðan í leikhléi var markalaus en Start skoraði tvö mörk í síðari hálfleik og tryggði sér þar með sinn þriðja sigur á tímabilinu en liðið er í næstneðsta sæti deildarinnar með ellefu stig.

Ingvar Jónsson sat allan tímann á varamannabekk Sandefjord þegar liðið heimsótti Bodo/Glimt og náði í eitt stig. 

Þá er Matthías Vilhjálmsson ekki í leikmannahópi Rosenborg sem er að leika við félaga Samúels Kára Friðjónssonar í Valerenga í þessum skrifuðu orðum en staðan er 2-0 fyrir Rosenborg.

Matthías er að koma til baka eftir meiðsli en Samúel Kári er hluti af landsliðshópi Íslands og er því staddur með strákunum okkar á HM í Rússlandi.

Einnig var leikið í norsku B-deildinni í dag þar sem Íslendingalið Álasund styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar með 3-0 sigri á Notodden þar sem þeir Hólmbert Aron Friðjónsson, Adam Örn Arnarson og Aron Elís Þrándarson komu við sögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×