Innlent

Tómas sagður á meðal þeirra sjö sem beri ábyrgð á vísindalegu misferli

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Rektor Karólínska háskólasjúkrahússins segir að málið hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir fræðasamfélagið í heild.
Rektor Karólínska háskólasjúkrahússins segir að málið hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir fræðasamfélagið í heild. Vísir
Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir á Landsspítalanum, er einn af þeim sjö sem rektor Karólínska háskólasjúkrahússins hefur sagt ábyrga fyrir vísindalegu misferli í plastbarkamálinu svokallaða. Úrskurðurinn var birtur á vef Karolínska sjúkrahússins í dag.

Peter Andréasson, fjölmiðlafulltrúi stofnunarinnar, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.

Málið má rekja til barkaígræðslna ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarini sem framkvæmdar voru á Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð. Hann framkvæmdi meðal annars plastbarkaígræðslu á Andemariam Beyene, Erítreumanni sem stundaði nám við Háskóla Íslands þegar hann greindist með krabbamein í hálsi. Beyene lést um tveimur og hálfu ári eftir aðgerðina en að meðferð Beyene komu tveir íslenskir læknar, Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson.

Tómas Guðbjartsson og Andamarian Beyene sumarið 2012.Vísir/Vilhelm
Að mati Ole Petter Ottersen, rektors Karolínska sjúkrahússins, eigi þrjátíu og einn höfundur sök í málinu fyrir framlag sitt til vísindagreinanna en þeir séu aftur á móti ekki ábyrgir fyrir vísindalegu misferli. Niðurstaða rannsóknarinnar bendir til alvarlegra ágalla í þeim upplýsingum sem voru lagðar fram. Þær hafi bæði verði ónákvæmar og villandi. Í vísindagreinum læknanna hefðu verið settar fram afbakaðar og falsaðar lýsingar á ástandi sjúklinganna fyrir og eftir aðgerð. Þá kemur það auk þess fram í rannsókninni að skortur hafi verið á læknisfræðilegum rökstuðningi fyrir því að láta sjúklinga gangast undir aðgerðina.

Þessi úrskurður, sem er byggður á nýrri rannsókn á sex vísindagreinum, snýr við ákvörðun rektors frá árinu 2015. Ákveðið var að hefja rannsókn að nýju í febrúar 2016. Stofnunin krefst þess að sex fræðigreinar verði afturkallaðar hið fyrsta.

„Þetta er niðurstaða sem byggð er á vandlegri rannsókn á máli sem hefur haft víðtækar afleiðingar fyrir Karolínska sjúkrahúsið, fræðasamfélagið í heild og þá hefur það einnig skert trú almennings á rannsóknir í læknavísindum. Þetta hefur þó sérstaklega haft skelfilegar afleiðingar fyrir sjúklingana sjálfa og aðstandendur þeirra og það harma ég. Karólínska sjúkrahúsið mun áfram gera ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar, til að koma í veg fyrir að eitthvað þessu líkt geti komið fyrir aftur,“ segir Ole Petter Ottersen, rektor Karolínska sjúkrahússins.


Tengdar fréttir

Bein útsending: Niðurstöður Plastbarkanefndarinnar kynntar

Nefnd sérfræðinga sem skipuð var til þess að rannsaka aðkoma Háskóla Íslands og Landspítala og starfsmanna stofnananna að plastbarkamálinu svokallaða mun kynna niðurstöður sínar í Norræna húsinu klukkan 14 í dag.

Blekkingameistarinn Paolo Macchiarini

Ferill ítalska skurðlæknisins Paolos Macchiarini innan og utan vinnustaða hans er ævintýrum líkastur. Plastbarka­misferli hans batt enda á það ævintýri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×