Innlent

Guðlaugur undirritaði fríverslunarsamning og ræddi mál Hauks

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Nihat Zeybecki, efnahagsmálaráðherra Tyrklands, undirrituðu í gær uppfærslu á fríverslunarsamningi landanna tveggja. Samningurinn við Tyrki tók gildi á vormánuðum 1992 og er elsti núgildandi samningur EFTA við þriðja ríki. Hann inniheldur ákvæði um mannréttindi sem Tyrkir skulu í heiðri halda.

Ráðherrarnir ræddu einnig stöðu mannréttinda í Tyrklandi og mál Hauks Hilmarssonar. Rúmir þrír mánuðir eru liðnir síðan sagt var frá því að Haukur hefði fallið í stríðsátökum í Sýrlandi en andlát hans hefur enn ekki verið staðfest.

Sjá einnig: Ætlar að ræða við tyrkneskan ráðherra um mál Hauks

Á fundinum kom Guðlaugur Þór á framfæri gagnrýni stjórnvalda á það hvernig Tyrkir koma fram við borgara sína. Þá gagnrýndi hann einnig hernaðarbrölt ríkisins í Afrin-héraði í Sýrlandi en þar er Haukur talinn hafa fallið. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að Zeybecki hafi tekið erindinu um mál Hauks vel en að hann hefði engar upplýsingar sem gætu varpað ljósi á málið.

„Ég hef tekið upp mál Hauks Hilmarssonar við varnarmálaráðherra og utanríkisráðherra Tyrklands og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa líka vakið máls á því við erlenda ráðamenn. Með komu tyrkneska ráðherrans hingað til lands gafst okkur enn eitt tækifærið til að knýja á um frekari upplýsingar og samstarf í þessu sorglega máli,“ segir Guðlaugur Þór.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×