Erlent

Sósíalisti sópaði vonarstjörnu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Alexandria Ocasio-Cortez rak ódýra en öfluga grasrótarbaráttu.
Alexandria Ocasio-Cortez rak ódýra en öfluga grasrótarbaráttu. Vísir/getty
Hinn þaulsetni Joe Crowley, sem margir bjuggust við að myndi taka við sem leiðtogi Demókrataflokksins í öldungadeild Bandaríkjaþings, hlaut ekki endurkjör í kosningum flokksins í New York-ríki í gærkvöldi. Sú sem skákaði honum var hin 28 ára gamla Alexandria Ocasio-Cortez, fyrrum sjálfboðaliði í kosningabaráttu Bernie Sanders og yfirlýstur sósíalisti.

Þegar búið er að telja um 98% atkvæða hefur Ocasio-Cortez hlotið um 57.5% atkvæða gegn 42.5% Crowley. Stjórnmálaskýrendur lýsa úrslitunum sem einhverjum þeim óvæntustu í nútímasögu bandarískra stjórnmála.

Ocasio-Cortez á rætur að rekja til Púertó-Ríkó. Hún gangrýndi Crowley harðlega í kosningabaráttunni fyrir tengsl hans við auðvaldið á Wall Street og sagði hún hann ekki í neinum tengslum við umbjóðendur sína. Þeir eru margir hverjir, ekki síst í Queens og Bronx, af erlendum uppruna - rétt eins og Ocasio-Cortez.

Crowley hefur lengi verið háttsettur innan Demókrataflokksins og bjuggust margir við því að hann myndi taka við leiðtogastöðu áður en langt um liði. Í samtali við Guardian segja starfsmenn flokksins að Crowley hafi fyrir vikið verið nokkuð sigurviss. Hann hafi því rekið nokkuð lágstemmda kosningabaráttu, þrátt fyrir að hafa safnað tífalt meira fjármagni en Ocasio-Cortez.

Kosningabaráttu Ocasio-Cortez er lýst sem grasrótarbaráttu sem reiddi sig á töluverðan fjölda sjálfboðaliða. Hún heimsótti landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó á dögunum og kallaði eftir því að aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í innflyjendamálum yrði hætt.

Crowley hefur lýst yfir ósigri og óskað Ocasio-Cortez til hamingju. Hann muni áfram vinna að því að koma Repúblikanaflokknum úr Hvíta húsinu - því „ríkisstjórn Trump er ógn við allt það sem við í Queens og Bronx stöndum fyrir.“

Donald Trump var sjálfur kampakátur með úrslitin, enda hefur hann lengi haft horn í síðu Crowley. „Kannski hefði hann átt að vera vingjarnlegri við forsetann sinn,“ skrifaði Trump á Twitter eftir að úrslitin lágu fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×