Erlent

Ísöldur sjást á yfirborði Plútós

Kjartan Kjartansson skrifar
Ísöldurnar má sjá á neðri helmingi myndarinnar.
Ísöldurnar má sjá á neðri helmingi myndarinnar. NASA/JHUAPL/SwRI
Athuganir bandaríska geimfarsins New Horizons benda til þess að öldur úr frosnu metani, ekki ólíkar sandöldum á jörðinni, sé að finna á dvergreikistjörnunni Plútó. Uppgötvunin kemur vísindamönnum nokkuð á óvart og bendir til þess að yfirborð Plútós veðrist meira en talið var mögulegt.

Stjörnufræðingar lögðust yfir myndir sem New Horizons sendi til jarðar eftir að geimfarið þeyttist fram hjá Plútó í júlí árið 2015. Á þeim komu þeir auga á fyrirbæri sem líktust sandöldum nærri fimm kílómetra háum fjallgarði úr vatnsís.

Efnagreining bendir til þess að öldurnar séu úr metanís. Ískornin sem mynda öldurnar eru um það bil á stærð við sandkorn, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Lofthjúpur Plútós er næfurþunnur og er aðallega úr köfnunarefni en einnig metani og kolmónoxíði í snefilmagni. Jafnvel er talið að gasið frjósi fast við yfirborðið þegar Plútó er fjærst sólu. Vísindamenn töldu að lofthjúpurinn væri of þunnur til þess að geta sorfið öldur í frosið yfirborðið.

Fjölbreyttari heimur en talið var

Matt Telfer, landfræðingur við Plymouth-háskóla á Englandi, segir að ísöldurnar séu líklega á einu vindasamasta svæði Plútós. Vindurinn þar gæti náð allt að tíu metrum á sekúndu. Það gæti værið nóg til að halda ískornum á hreyfingu.

Ólíkt jörðinni þar sem sólin knýr vindana telja vísindamennirnir að vindarnir sem mynda ísöldurnar á Plútó verði til þegar loft flæðir niður fjallgarðinn í grenndinni og við þurrgufun yfirborðsins. Þurrgufun er þegar fast efni fer beint yfir í gasform. Örlítill hiti frá fjarlægri sólinni gæti svo hjálpað til við að lyfta ískornunum upp af yfirborðinu þar sem vindurinn getur borið þau með sér.

Áður en New Horizons bar að garði höfðu menn aldrei séð yfirborð Plútós. Fyrirfram töldu stjörnufræðingar að þar væri ekki að finna mikla virkni enda er Plútó á ysta hjara sólkerfisins, allt frá 4,4 til 7,3 milljörðum kílómetra frá sólinni eftir því hvar hann er á braut sinni.

Myndir geimfarins leiddu hins vegar í ljós mun fjölbreyttari heim en vísindamenn höfðu ímyndað sér. Þannig eru vísbendingar um einhvers konar jarðvirkni og möguleg íseldfjöll á yfirborðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×