Viðskipti innlent

Fasteignaskattar jukust um 6,1 milljarð

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Ísland var með hæstu fasteignagjöldin á Norðurlöndum árið 2016.
Ísland var með hæstu fasteignagjöldin á Norðurlöndum árið 2016. Vísir/VIlhelm
Ætla má að árlegar tekjur sveitarfélaga af fasteignaskatti hafi aukist um 6,1 milljarð króna á milli áranna 2013 og 2017. Aukninguna má nær alfarið rekja til hækkunar fasteignaverðs um land allt. Frá árinu 2014 hefur álagður fasteignaskattur hækkað um 17 prósent á hvern íbúa á föstu verðlagi. Þetta kemur fram í skoðun Viðskiptaráðs um sveitarfélög.

Ísland var með hæstu fasteignagjöldin á Norðurlöndum í hlutfalli við landsframleiðslu árið 2016 eða 1,5 prósent af landsframleiðslu. Til samanburðar var hlutfallið 1,4 prósent í Danmörku, 0,8 prósent í Svíþjóð og Finnlandi og 0,4 prósent í Noregi, að því er fram kemur í skoðuninni. „Einnig var vægi þeirra af heildarskattheimtu meira en gerist á öðrum Norðurlöndum. Að þessu leyti stendur Ísland því verr að vígi í alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki heldur en hin Norðurlöndin,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.

Viðskiptaráð segir að sterk rök hnígi að því að skilvirkara væri að afnema fasteignaskatta og láta gjaldtöku af lóðum koma í stað þeirra. Skattlagning lóða sé hagkvæmari leið til gjaldtöku og geti stuðlað að betri nýtingu landsvæðis en skattlagning bygginga og mannvirkja. „Þannig ýtir skattur á lóðir í stað bygginga undir þéttingu byggðar með því að gera útþenslu kostnaðarsamari en áður.“

Tekjur sveitarfélaga voru um 13 prósent af vergri landsframleiðslu í fyrra sem er hærra hlutfall en samanlagt framlag sjávarútvegs, stóriðju og veitna til landsframleiðslu. Tekjurnar samsvara 28 milljörðum króna á mánuði, samkvæmt skoðuninni. „Lækkun skatta og gjalda á íbúa er lítið uppi á pallborðinu þrátt fyrir að innheimta sveitarfélaganna hafi aldrei verið meiri,“ segir Viðskiptaráð. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×