Erlent

Fágæt dýr ganga kaupum og sölum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Feldir eru vinsæl söluvara.
Feldir eru vinsæl söluvara. Vísir/getty
Dýr í útrýmingarhættu eru vinsæll söluvarningur í Evrópu. Rannsókn á vegum dýraverndunarsamtakanna IFAW leiddi í ljós að auðmenn í Evrópu víli ekki fyrir sér að versla með fágæt dýr á borð við lifandi hlébarða, orangútana og birni ásamt því að kaupa mikið af ísbjarnafeldum og fílabeini.

Rannsakendur lágu yfir rúmlega 100 sölusíðum á netinu og fundu þar um 5000 auglýsingar fyrir dýr í útrýmingarhættu eða fágætar dýraafurðir á sex vikna tímabili. Söluandvirðið nam um 400 milljónum íslenskra króna.

Vinsælasta söluvaran á tímabilinu voru hvers kyns skriðdýr, eins og fágætar skjaldbökur og krókódílar. Fuglar í útrýmingarhættu voru jafnframt mjög vinsælir. Til að mynda var hægt að kaupa um 500 uglur og 350 páfagauka á sölusíðunum.

Þá var hægt að kaupa mikið af stórum spendýrum á rússnesku sölusíðunum. Þar mátti fá hlébarða, blettatígra og birni sem sagðir eru vera ákveðin stöðutákn sums staðar í heiminum. Þá var einnig hægt að kaupa órangútana, lemúra og gibbonapa.

Sala á fílabeini virðist hafa minnkað mikið ef marka má fjölda auglýsinga. Hins vegar segja rannsakendurnir að eftirspurnin eftir fílabeini hafi aukist umtalsvert í Þýskalandi á síðustu árum. Þá eru hvers kyns húðir og feldir vinsælar vörur á bresku sölusíðunum.

Sölusíðurnar eru starfræktar víðsvegar í Evrópu, til að mynda í Bretlandi, Frakklandi og Rússlandi. Dýraverndunarhópar hafa á síðustu árum starfað náið með stórum netfyrirtækjum á borð við eBay, Facebook og Google til að stemma stigu við sölu á dýrum í útrýmingarhættu á netinu. Ætlunin er að draga úr sölunni um 80% fyrir árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×