Erlent

Molnar undan stuðningi við forseta Níkaragva

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælandinn með krepptan hnefa á lofti í höfuðborginni Managva.
Mótmælandinn með krepptan hnefa á lofti í höfuðborginni Managva. Vísir/EPA
Raddir um að Daniel Ortega, forseti Níkaragva, stígi til hliðar hafa orðið háværari eftir að fjara tók undan stuðningi við hann innan kirkju, hers og viðskiptalífs landsins. Að minnsta kosti 77 manns hafa fallið í mótmælum gegn ríkisstjórn hans síðasta rúma mánuðinn.

Sandínistinn Ortega hefur setið á stóli forseta í áratug og var endurkjörinn fyrir tveimur árum með þremur fjórðu hluta atkvæða. Hann hafði þá takmarkað möguleika stjórnarandstöðunnar til að gefa kost á sér. Ortega stýrði Níkaragva einnig frá 1979 til 1990 eftir að sandínistar leiddu byltingu gegn einræðisherranum Anastacio Somoza.

Stúdentar hófu mótmæli gegn forsetanum fyrir rúmum mánuði þegar hann gerði breytingar á almannatryggingakerfi landsins. Ortega hefur mætt þeim af hörku. Auk þeirra 77 sem hafa látið lífið hafa fleiri en átta hundruð særst í nær daglegum mótmælum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Mótmælin hafa lamað samfélagið að hluta en mótmælendurnir hafa meðal annars lokað hraðbrautum með vegartálmum. Ríkisstjórnin áætlar að mótmælin hafi kostað efnahag landsins 250 milljónir dollara.

Harkaleg viðbrögð yfirvalda við mótmælunum virðast hafa grafið undan stuðningi við forsetann hjá hefðbundnum valdaöflum í samfélagi Níkaragva. Þannig hefur herinn, sem fram að þessu hefur verið hliðhollur sandínistum, verið tregur til að bregðast við mótmælunum undanfarna daga.

Stuðningur kirkjunnar og viðskiptalífsins hefur einnig farið dvínandi. Klerkar hafa gagnrýnt Ortega fyrir að taka ekki undir „lýðræðisvæðingu landsins“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×