Innlent

Hundi frá Litháen vísað úr landi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. Vísir/Anton Brink.
Nýlega staðfesti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið synjun Matvælastofnunar á innflutningi hunds frá Litháen og var hundurinn því fluttur út að nýju daginn eftir komuna til landsins. Var hundurinn allan tímann í sóttvarnarstöð gæludýra á Keflavíkurflugvelli.

Kærandi hafði fengið leyfi frá Matvælastofnun til innflutnings á tíkinni. Við komuna til landsins kom hins vegar í ljós þegar örmerki hennar var skannað að örmerkisnúmer hennar stemmdi ekki við það númer sem tilgreint var á heilbrigðis- og upprunavottorði og fleiri gögnum. Matvælastofnun synjaði því um innflutning á þeim grundvelli að kærandi hefði sótt um innflutningsleyfi fyrir einn hund en flutt inn annan hund.

Kærandi var ósáttur við þetta og taldi stofnunina hafa brotið lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og einnig rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga við málsmeðferð sína. Lögum um velferð dýra hafi ekki verið fylgt með því að mæla fyrir um flutning dýrsins úr landi að nýju. Ákvörðun stofnunarinnar hefði verið geðþóttaákvörðun og hægt hefði verið að leysa málið á annan hátt.

Í úrskurðinum tekur ráðuneytið undir það mat stofnunarinnar að skilyrði vegna innflutningsins hefðu ekki verið uppfyllt. Verulegur vafi hafi leikið á því að tíkin sem flutt var til landsins hefði verið skoðuð með þeim hætti sem lög og reglugerðir gera ráð fyrir. Ráðuneytið féllst heldur ekki á að stofnunin hefði brotið önnur lagaákvæði í stjórnsýslu sinni. Var því synjun Matvælastofnunar staðfest og ekki vikið að öðrum kröfum kæranda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×