Innlent

Ríkisskattstjóri lætur af störfum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skúli Eggert Þórðarson tekur við embætti ríkisendurskoðanda.
Skúli Eggert Þórðarson tekur við embætti ríkisendurskoðanda. Vísir/Anton
Ingvar J. Rögnvaldsson tók við embætti ríkisskattstjóra í gær. Skúli Eggert Þórðarson, sem áður gegndi embættinu, lét af störfum 1. maí en hann hefur verið kjörinn ríkisendurskoðandi.

Skúli tók við embætti ríkisskattstjóra 1. janúar 2007 og á hann að baki „37 ára farsælan starfsferil innan skattkerfisins,“ eins og það er orðað á vef ríkisskattstjóra. Var hann skattrannsóknarstjóri frá árinu 1993 og til ársloka 2006, og þar áður vararíkisskattstjóri á árunum 1990-1993.

„Á þeim tíma sem Skúli Eggert hefur leitt starfsemi ríkisskattstjóra hefur stofnunin tekið miklum breytingum, ekki hvað síst með sameiningu embættisins við hinar níu áður sjálfstæðu skattstofur landsins árið 2010,“ segir ennfremur á vef embættisins.

Við brotthvarf Skúla tók Ingvar J. Rögnvaldsson við sem settur ríkisskattstjóri en Ingvar hefur verið vararíkisskattstjóri frá 1. ágúst 2000.

„Starfsmenn ríkisskattstjóra óska Skúla Eggert velfarnaðar á nýjum vettvangi með innilegu þakklæti fyrir samstarfið á undanförnum árum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×