Fótbolti

Krókódílatár hjá Özil sem á ekki skilið að klæðast treyju Arsenal

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mesut Özil grét í leikslok.
Mesut Özil grét í leikslok. vísir/getty
Arsene Wenger vinnur ekki Evróputitil sem knattspyrnustjóri Arsenal. Það varð ljóst í gærkvöldi þegar að liðið tapaði fyrir Atlético í Madríd, 1-0, í seinni undanúrslitaleik liðanna í Evrópudeildinni.

Wenger hefur aldrei unnið Evróputitil á ferlinum en það var ekki hann sem fékk pillu frá Martin Keown, fyrrverandi leikmann Arsenal, eftir leik heldur þýski miðjumaðurinn Mesut Özil.

Keown varð þrívegis Englandsmeistari undir stjórn Wengers en honum var allt annað en skemmt yfir frammistöðu Özils sem hann tók gjörsamlega af lífi í myndveri BT Sport eftir leikinn.

Özil felldi tár eftir leikinn, svekktur að komast ekki alla leið, en Keown var ekki að kaupa þetta táraflóð Þjóðverjans.

„Hann á ekki skilið að klæðast Arsenal-treyjunni,“ sagði bálreiður Keown. „Þetta eru krókódílatár fyrir mér. Hann er ekki að blekkja mig.“

„Ég veðja á að hann spili ekki fleiri leiki á þessari leiktíð. Hann á eftir að brotna niður og vera óleikfær um helgina,“ sagði Martin Keown.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×