Innlent

Segja erlenda dýralækna nauðsynlega

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Án viðveru dýralæknis er ekki hægt að slátra dýrum.
Án viðveru dýralæknis er ekki hægt að slátra dýrum. Vísir/GVA
Matvælastofnun telur að án ráðningar erlendra dýralækna geti stofnunin ekki sinnt skyldum sínum. Án opinbers dýralæknis geti sláturhús ekki starfað.

Umboðsmaður Alþingis segir í nýju áliti að ráðning Matvælastofnunar á erlendum dýralæknum til starfa í opinberri þjónustu fullnægi ekki skilyrði laga um að þeir hafi vald á íslenskri tungu.

Matvælastofnunin segir að hlutfall erlendra dýralækna sem þar starfi hafi aukist undanfarin ár þar sem ekki hefur tekist að ráða íslenskumælandi dýralækna í tiltekin störf. Ítrekað hafi tilteknar stöður dýralækna verið auglýstar lausar án þess að dýralæknar með vald á íslenskri tungu hafi sótt um. Við slíkar aðstæður hafi erlendir dýralæknar verið ráðnir.

Sjá einnig: Umboðsmaður Alþingis hnýtir í Matvælastofnun

„Hjá Matvælastofnun starfa í dag um 35 dýralæknar í fullu starfi. Um þriðjungur þeirra er erlendur og stærstur hluti þeirra með takmarkað vald á íslenskri tungu. Stofnunin ræður auk þess dýralækna frá EES-ríkjum í tímabundnar ráðningar yfir sláturtíðina,“ segir í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Á annan tug erlendra dýralækna hafi verið ráðnir til slíkra starfa í haust.

„Ljóst er að án dýralækna mun Matvælastofnun ekki geta sinnt lögbundnum skyldum sínum. Í sláturhúsum er krafa um viðveru opinbers dýralæknis við alla slátrun, í þeim tilgangi að fylgja eftir kröfum um velferð dýra og öryggi afurða. Án viðveru opinbers dýralæknis geta sláturhús þar með ekki starfað,“ segir í tilkynningunni.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×