Erlent

Fjölmenn flóttatilraun fór úr böndunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Félagar fanganna reyndu að sprengja þá út úr fangelsinu í nótt.
Félagar fanganna reyndu að sprengja þá út úr fangelsinu í nótt. Vísir/AFP
Fjöldi fanga sem hýrst hafði í fangelsi í norðurhluta Brasilíu er látinn eftir það sem virðist hafa verið fjölmenn flóttatilraun.

Fangahópurinn er sagður í erlendum miðlum hafa notið aðstoðar vopnaðrar sveitar utan veggja fangelsisins sem á að hafa reynt að sprengja félaga sína út úr fangelsinu. 

Talið er að 20 hafi látist í átökunum í nótt, 19 úr liði fanga og aðstoðarmanna þeirra og einn fangavörður. Fjórir fangaverðir særðust að sama skapi, þar af einn alvarlega.

Talsmenn fangelsins segja að fangaverðirnir hafi þurft að verjast árásum bæði innan sem utan fangelsisins. Fangaverðir rannsaka nú hvort einhver fanganna hafi náð að flýja í nótt, hverjir stóðu á bakvið flóttann sem og hvernig föngunum tókst að skipuleggja tilraunina.

Fangauppreisnir eru tíðar í brasilískum fangelsum. Til að mynda létust 56 fangar og fangaverðir í uppreisn í Manaus í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×