Innlent

Vilja hjólastíg á milli Miklubrautar og Bústaðavegar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Svona sér borgin fyrir sér að hjólastígurinn muni líta út.
Svona sér borgin fyrir sér að hjólastígurinn muni líta út. Mynd/Reykjavíkurborg
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur óskað eftir heimild fyrir því að bjóða út framkvæmdir við gerð hjólastíga á milli Miklubrautar og Bústaðavegar. Áætlað er að framkvæmdin, auk hljóðvarnaraðgerða og endurgerðar göngustígs, kosti 270 milljónir króna.

Tillagan var lögð fyrir borgarráð Reykjavíkurborgar í gær en reiknað er með að framkvæmdir geti hafist í maí og verði lokið í nóvember.

Gert er ráð fyrir að hjólastígurinn verði vestan Kringlumýrarbrautar á milli Miklubrautar og Bústaðavegar. Samhliða framkvæmdunum verðir núverandi göngustígur endurgerður og komið fyrir hljóðvörnum fyrir aðliggjandi byggð vegna umferðar frá Kringumýrarbraut.

Kostnaðaráætlun vegna hjólastígsins og hljóðvarnar er sem fyrr segir 270 milljónir en hluti borgarinnar er 185 milljónir króna en þar sem Kringlumýrarbraut er stofnbraut greiðir Vegagerðin helming kostnaðar við gerð hjólastígsins.

Reiknað er með að framkvæmdin yrði í þremur áföngum. Fyrsti áfangi næði frá Miklubraut til Hamrahlíðar og tæki tvö mánuði. Því næst yrði unnið að gatnamótum Hamrahlíðar og Kringlumýrarbrautar í einn og hálfan mánuð. Þriðji áfanginn er svo frá Hamrahlíð upp að Bústaðavegi og er reiknað með að tæki þrjá mánuði að klára síðasta áfangann.

Framkvæmdin er hluti af hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar sem miðar að því að auka hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum í borginni.

Mynd/Reykjavíkurborg.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×