Fótbolti

Arsenal niðurgreiðir miða á leikinn í Madríd

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það er mun ódýrara að vera stuðningsmaður gestaliðs á Emirates vellinum heldur en í Madríd
Það er mun ódýrara að vera stuðningsmaður gestaliðs á Emirates vellinum heldur en í Madríd Vísir/Getty
Arsenal mun greiða niður miðaverð stuðningsmanna sinna sem gera sér ferð yfir til Spánar fyrir seinni leik liðsins gegn Atletico Madrid í undanúrslitum Evrópudeildarinnar.

Félagið greindi frá því í dag að stuðningsmenn þeirra muni ekki þurfa að greiða meira fyrir leikinn á Spáni heldur en spænskir stuðningsmenn þurfi að greiða til að sjá fyrri leikinn í Lundúnum.

Miði fyrir stuðningsmenn Arsenal á leikinn í Madríd, sem fer fram 3. maí, kostar 79 pund. Arsenal rukkar stuðningsmenn Atletico 36,50 pund fyrir miða á leikinn á Emirates vellinum. Arsenal mun því niðurgreiða 42,50 pund fyrir hvern stuðningsmann.

„Stuðningsmennirnir sem ferðast á útileiki eru lífið og sálin í félaginu og við viljum gera ferðina þeirra til Spánar auðveldari,“ sagði Mark Brindle, stuðningsmannatengiliður hjá Arsenal.

Fyrri leikur liðanna fer fram eftir viku, fimmtudaginn 26. apríl, á Emirates vellinum í London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×