Erlent

Carlos yngsti forseti í sögu Kosta Ríka

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Carlos Quesada sigri hrósandi eftir kosningarnar.
Carlos Quesada sigri hrósandi eftir kosningarnar. Vísir/EPA
Miðjumaðurinn Carlos Alvarado Quesada hafði betur gegn mótframbjóðanda sínum, Alvarado Muñoz, í forsetakosningunum í Kosta Ríka. Sigur Quesada þykir tryggja áframhaldandi áherslu á umburðarlyndi gagnvart innflytjendum og minnihlutahópum og réttindum þeirra.

Quesada, sem er 38 ára gamall og fyrrverandi þingmaður og rithöfundur, hlaut 61 prósent greiddra atkvæða. Yfirburðir hans voru nokkuð meiri en gert var ráð fyrir.

Quesada verður yngsti forseti í sögu Kosta Ríka þegar hann tekur við völdum í maí. Varaforseti hans verður Epsy Campbell en hún verður fyrsta afrískættaða konan til að gegna því embætti.

„Mitt loforð er að stuðla að ríkisstjórn sem allir eiga hlut í, bæði hvað varðar jafnrétti og frelsi einstaklinga til að eiga farsæla framtíð,“ sagði Quesada í gær er þúsundir söfnuðust saman í San José til að hylla forsetann nýja. „Það er miklu fleira sem sameinar okkur en skilur okkur að.“

Í kosningabaráttunni lagði Quesada mikla áherslu á réttindi samkynhneigðra og hefur heitið lagabreytingum sem heimila hjónabönd þeirra. Þessar áherslur Ques­ada höfðu betur gegn uppátækjum Muñoz sem viðurkenndi ósigur stuttu eftir að 95 prósent atkvæða höfðu verið talin.

Muñoz hinn íhaldsami er fyrrverandi sjónvarpsfréttamaður en hann er einna þekktastur fyrir trúarlega tónlist sem hann hefur samið lengi vel. Kosningabarátta hans snerist að stórum hluta um að banna hjónabönd samkynhneigðra og fóstureyðingar.

Muñoz sendi Quesada heillaóskir og lofaði því að aðstoða hann við leysa úr vandamálum landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×