Sport

Heimsmeistarinn bestur í tölti

Telma Tómasson skrifar
Jakob Svavar Sigurðsson sigraði töltkeppni í Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum TM reiðhöllinní í Víðidal í Reykjavík í gærkvöldi með nokkrum yfirburðum á gæðingshryssunni Júlíu frá Hamarsey.

Keppt var í tveimur greinum á lokakvöldi Meistaradeildarinnar, tölti og flugskeiði, en endapunkturinn var mjög spennandi þar sem ljóst var að Jakob Svavar og Árni Björn Pálsson myndi keppa um efsta sætið í einstaklingskeppninni.

Jakob Svavar átti talsvert sterkari sýningu en Árni Björn í forkeppninni í tölti. Í A-úrslitum reyndist hann líka betri og fór verðskuldað heim með gullið, sigldi Júlíu af miklu öryggi í gegnum öll sýningaratriðin. Lokaskor 8,78.

Meistaradeildin var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og má sjá sýningu Jakobs Svavars í forkeppninni í meðfylgjandi myndskeiði.

Jakob Svavar varð svo annar efstur að stigum í einstaklingskeppninni, með alls 48 stig, en hann átti glæsilegan vetur í Deildinni, vann keppni í fjórgangi, slaktaumatölti, fimmgangi og tölti.

Niðurstöður í A-úrslitum í tölti:

1 Jakob Svavar Sigurðsson Júlía frá Hamarsey 8.78

2 Árni Björn Pálsson Ljúfur frá Torfunesi 8.25

3 Viðar Ingólfsson Pixi frá Mið-Fossum 8.17

4 Hulda Gústafsdóttir Draupnir frá Brautarholti 7.61

5 Guðmundur F. Björgvinsson Austri frá Úlfsstöðum 7.50

6 Teitur Árnason Sólroði frá Reykjavík 7.06




Fleiri fréttir

Sjá meira


×