Erlent

Assad-liðar sakaðir um aðra efnavopnaárás

Samúel Karl Ólason skrifar
70 borgarar eru sagðir hafa fallið í loftárásum á síðasta sólarhring.
70 borgarar eru sagðir hafa fallið í loftárásum á síðasta sólarhring. Vísir/AFP
Sýrlenskur uppreisnarhópur hefur sakað stjórnarher landsins um að gera efnavopnaárás á bæinn Douma í Austur-Ghouta í Sýrlandi. Ríkisstjórn Bashar al-Assad, forseta, þvertekur fyrir að efnavopnaárás hafi verið gerð og segir að um lygar sé að ræða. Samtökin Syrian Observatory for Human Rights segja að ellefu manns hefðu dáið vegna árásarinnar og hafa myndir af látnum börnum með froðu í öndunarfærum verið í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Hjálparsamtökin Syrian American Medical Society, eða SAMS, segja sex hafa látið lífið vegna klórgass á sjúkrahúsi í Douma og að fleiri hafi dáið í nærliggjandi byggingu. Einn af yfirmönnum SAMS segir í samtali við Reuters að alls hafi 35 dáið vegna árásarinnar.



Ríkissjónvarp Sýrlands, SANA, segir uppreisnarhópinn, Jaish al-Islam, hafa búið sögurnar til að reyna að koma í veg fyrir sókn stjórnarhersins gegn þeim.

Douma er eini bærinn í Austur-Ghouta sem stjórnarherinn hefur ekki náð tökum á. Friðarsamkomulag hafði verið gert í bænum en loftárásir hófust aftur í gær. SOHR segir að minnst 70 borgarar hafi fallið í árásunum á síðasta sólarhring.

Læknir sem AFP fréttaveitan ræddi við segir heilbrigðisstarfsmenn ekki hafa undan að telja hina særðu. AFP segir rúmlega 1.600 almenna borgara hafa fallið í árásum hersins í Ghouta frá því þær hófust þann 18. febrúar.

Í dag er nákvæmlega ár frá því að Bandaríkin skutu 59 Tomahawk eldflaugum að herflugvelli í Sýrlandi. Það var gert eftir efnavopnaárás á bæinn Khan Sheikhoun þar sem rúmlega 80 manns létu lífið. Rannsakendur Sameinuðu þjóðanna komust að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórn Assad bæri ábyrgð á árásinni.


Tengdar fréttir

Árásirnar hættu ekki

Fyrsta daglega pásan á átökunum í Austur-Ghouta gagnaðist engum. Rússar segja engan hafa flúið. Assad-liðar og uppreisnarmenn benda hvorir á aðra.

Segja saríngasi hafa verið beitt í Khan Sheikhoun

Efnavopnastofnunin segir tugi hafa látið lífið í árásinni og rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna mun rannsaka hvort að ríkisstjórn Sýrlands beri ábyrgð á árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×