Erlent

Madsen neitar að lýsa því hvernig hann bútaði lík Kim Wall niður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikill áhugi er á réttarhöldunum yfir Madsen.
Mikill áhugi er á réttarhöldunum yfir Madsen. Vísir/EPA

Danski uppfinningamaðurinn Peder Madsen neitar enn sök í réttarhöldunum yfir honum vegna andláts sænska blaðamannins Kim Wall. Réttarhöldin yfir Madsen halda áfram í dag í Kaupmannahöfn eftir tæplega tveggja vikna hlé.

Áfram var haldið þaðan sem frá var horfið þann 8. mars þegar réttarhöldin hófust. Þá gaf Madsen þær skýringar að Wall hafi látist um borð í kafbát hans vegna kolsýringseitrunar í aðstæðum sem sköpuðust þegar Madsen fór upp á þilfar en gat ekki opnað hlera kafbátsins til þess að komast niður aftur vegna þrýstingsfalls.

Gaf hann þá einnig þá skýringu að hann hafi þurft að búta niður lík Wall til þess að koma henni úr kafbátnum, hann hafi reynt að koma henni upp í heilu lagi en það hafi ekki tekist.

„Þetta var hræðilegt“

Saksóknarni málsins tók í dag upp þráðinn og hélt áfram að spyrja Madsen út í það hvernig hann hefði bútað lík Wall niður.

Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen er ákærður fyrir morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall.

„Við erum að tala um manneskju og ég held að þú ættir að spyrja sérfræðingana,“ svaraði Madsen er saksóknarinn spurði hann út í þetta. „Þetta var hræðilegt og ég vil ekki þurfa að lýsa því.“

Sagði Madsen að hans eina hugsun á þessum tímapunkti hafði verið að koma líkinu úr bátnum og útbyrðis en í réttarhöldunum lýsti Madsen því hvernig hann taldi að lífi sínu væri lokið, eftir að Wall lést um borð í kafbátnum.

Madsen stakk einnig göt á lík Wall en niðurstaða krufningar benti til þess að stungusár á brjósti og klofi hennar hafi komið eftir að hún lést.

Aðspurður um það svaraði Madsen að hann hafi stungið nokkur göt hér á þar á líkið til þess að koma í veg fyrir að gasmyndun í líkinu yrði til þess að það myndi fljóta upp á yfirborðið. Saksóknarinn spurði hann sérstaklega út í stungusárin í klofi Wall og hvort að þar hefði eitthvað kynferðislegt búið að baki?

„Nei, það er ekkert kynferðislegt,“ svaraði Madsen. „Ég veit ekki hvort að þér finnist það eitthavð kynferðislegt, þér finnst það kannski, en ekki mér.“

Réttarhöldin halda áfram í dag en síðar í dag mun verjandi Madsen fá tækifæri til þess að spyrja hann spurninga. Fylgjast má með réttarhöldunum í beinni textalýsingu á vef danska ríkisútvarpsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×