Erlent

For­seti Óskar­sakademíunnar sætir rann­sókn vegna á­sakana um kyn­ferðis­lega á­reitni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
John Bailey, forseti Óskarsakademíunnar.
John Bailey, forseti Óskarsakademíunnar. Vísir/Getty
John Bailey, forseti Bandarísku kvikmyndaakademíunnar, sætir nú rannsókn vegna ásakana á hendur honum um kynferðislega áreitni. Variety greindi fyrst miðla frá málinu.

Nefnd innan kvikmyndaakademíunnar, sem m.a. úthlutar Óskarsverðlaunum ár hvert, hóf rannsóknina á miðvikudag. Þrjár ásakanir á hendur Bailey hafa borist nefndinni, að því er Hollywood Reporter hefur eftir heimildarmönnum sínum.

Í yfirlýsingu frá akademíunni, sem gefin var út eftir að málið rataði í fjölmiðla, sagði að enginn innan hennar myndi tjá sig um ásakanirnar þangað til rannsókn lyki. „Meðferð mála hjá Akademíunni er bundin trúnaði af virðingu við alla hlutaðeigandi,“ sagði í tilkynningu.

Bailey, sem hefur verið margheiðraður fyrir starf sitt sem kvikmyndatökumaður, tók við stöðu forseta í ágúst síðastliðnum. Hann hefur starfað við kvikmyndir á borð við Ordinary People, American Gigolo, The Big Chill og Groundhog Day.

Harvey Weinstein komst upp með að áreita og beita konur kynferðislegu ofbeldi um áratugaskeið. Hann var rekinn úr Bandarísku kvikmyndaakademíunni í október síðastliðnum.VÍSIR/AFP
Í október síðastliðnum var kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein rekinn úr umræddri  akademíu vegna fjölmargra ásakana á hendur honum um kynferðisofbeldi, sem svo komu af stað #MeToo-byltingunni. Stjórn akademíunnar telur 54 manns og var ákvörðun um brottvikningu Weinsteins tekin á neyðarfundi í október síðastliðnum.

Þá segir í frétt Hollywood Reporter að Bailey, forseti akademíunnar og sá sem nú er rannsakaður vegna ásakana um áreitni, hafi sent meðlimum akademíunnar tölvupóst í kjölfar fundarins. Þar var nýrri stefnu akademíunnar í kynferðisbrotamálum lýst og fólst hún m.a. í því að héðan í frá yrðu ásakanir teknar til rannsóknar af sérstakri nefnd.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×