Erlent

Katrín ræddi mál Hauks Hilmarssonar við Merkel

Hulda Hólmkelsdóttir og Þorbjörn Þórðarson skrifa
Katrín og Merkel héldu stuttan blaðamannafund áður en þær héldu til fundar.
Katrín og Merkel héldu stuttan blaðamannafund áður en þær héldu til fundar. Vísir/EPA

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, fundaði í dag með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Katrín og Merkel héldu stuttan blaðamannafund áður en þær héldu til fundar. 

Meðal þess sem þær ræddu á fundinum var mál Hauks Hilmarssonar sem talið er að hafi fallið í átökum í Sýrlandi þann 24. febrúar síðastliðinn. Óskaði Katrín eftir því að íslensk yfirvöld mættu njóta liðsinnis þýskra yfirvalda til að leita upplýsinga um örlög Hauks.

„Ég bara notaði tækifærið í ljósi þess að við vorum á þessum fundi og óskaði þess að við mættum njóta liðsinnis Þjóðverja í því máli þar sem þau hafa auðvitað töluvert mikla reynslu af málum sem þessum. þannig ég notaði tækifærið og óskaði liðsinnis og var mjög vel tekið með það,“ segir Katrín í samtali við fréttastofu.

Vísir/EPA

Vissi Merkel um mál Hauks?

„Nei hún þekkti ekki til þess fyrir en auðvitað þekkir mjög vel til aðstæðna í Tyrklandi og meðal þess sem við ræddum á fundinum voru stóru línurnar þegar kemur að málefnum flóttamanna. Þar hefur hún auðvitað stigið mjög eindregið fram og talað mjög sterklega fyrir því að vestræn ríki þurfi líka að efla þróunarsamvinnu og þróunaraðstoð.“

Katrín ræddi fund sinn með Merkel í Reykjavík síðdegis í dag.

Engar nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli Hauks að sögn Sveins H. Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins. Ráðuneytið vinnur áfram í málinu og að sögn Sveins er lögð áhersla á samvinnu við ástvini Hauks og að halda þeim upplýstum um gang mála.

Aðstandendur Hauks funduðu með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra þann 13. mars síðastliðinn og hefur Guðlaugur Þór rætt við utanríkisráðherra Tyrklands vegna málsins.

Í heimsókn sinni í Þýskalandi mun Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra jafnframt taka þátt í dagskrá fullveldishátíðar á vegum sendiráðs Íslands í Berlín og ávarpa jafnréttisráðstefnu sem ber yfirskriftina DÓTTIR þar sem m.a. verður fjallað um samræmingu vinnu og fjölskyldulífs.


Tengdar fréttir

Utanríkismálanefnd fundaði um mál Hauks Hilmarssonar

Utanríkismálanefnd Alþingis fundaði í morgun um mál Hauks Hilmarssonar sem féll í stríðsátökum í Sýrlandi í síðasta mánuði. Formaður nefndarinnar segir mikilvægt að afla sem fyrst upplýsinga um afdrif Hauks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×