Innlent

Ráðherra skipar starfshóp vegna hvítbókar um fjármálakerfið

Þórdís Valsdóttir skrifar
Starfshópnum er falið að ljúka vinnu sinni fyrir 15. maí næstkomandi með skýrslu til fjármála- og efnahagsráðherra.
Starfshópnum er falið að ljúka vinnu sinni fyrir 15. maí næstkomandi með skýrslu til fjármála- og efnahagsráðherra. Vísir/GVA
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hyggst skipa starfshóp sem vinna á hvítbók um framtíðarsýn og stefnu fyrir fjármálakerfið á Íslandi, í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

„Markmiðið er að skapa traustan grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanatöku um málefni er varða fjármálakerfið, framtíðargerð þess og þróun,“ segir í tilkynningunni.

Formaður starfshópsins verður Lárus L. Blöndal, hæstaréttarlögmaður og stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins. Í hópnum munu einnig sitja Guðrún Ögmundsdóttir, forstöðumaður lausafjárhættu og fjármálafyrirtækja hjá Seðlabanka Íslands, Guðjón Rúnarsson lögmaður, Kristrún Tinna Gunnarsdóttir hagfræðingur og Sylvía K. Ólafsdóttir deildarstjóri hjá Landsvirkjun.

Starfshópnum er falið að ljúka vinnu sinni fyrir 15. maí næstkomandi með skýrslu til fjármála- og efnahagsráðherra.

Aukið traust á íslenskum fjármálamarkaði

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að sátt þurfi að ríkja um fyrirkomulag fjármálakerfisins til framtíðar og að hvítbók verði lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar áður en stefnumarkandi ákvarðanir verði teknar um fjármálakerfið.

Hvítbókin á að hafa að leiðarljósi aukið traust á íslenskum fjármálamarkaði, aukið gagnsæi og fjármálastöðugleika.

Í stjórnarsáttmálanum segir einnig að ríkisstjórnin vilji vinna að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu, að dregið verði úr áhættu vegna óskyldra þátta í starfsemi fjármálafyrirtækja og að sérstaklega verði litið til annarra lítilla opinna hagkerfa og reynslu annars staðar á Norðurlöndunum við mótun framtíðarsýnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×