Erlent

Bandaríkjastjórn hættir neyðaraðstoð við Púertó Ríkó

Kjartan Kjartansson skrifar
Starfsmenn FEMA hafa dreift vatni og mat til íbúa Púertó Ríkó eftir að fellibylurinn María olli gríðarlegri eyðileggingu þar í september.
Starfsmenn FEMA hafa dreift vatni og mat til íbúa Púertó Ríkó eftir að fellibylurinn María olli gríðarlegri eyðileggingu þar í september. Vísir/AFP
Þrátt fyrir að þriðji hver íbúi á Púertó Ríkó sé enn án rafmagns og fólk í dreifbýli eigi erfitt með að nálgast hreint vatn og mat hafa almannavarnir Bandaríkjanna ákveðið að hætta að dreifa matvælum og vatni á eyjunni. Fjórir mánuðir eru liðnir frá því að fellibylurinn María lék eyjuna grátt.

Tilkynnt var um ákvörðun FEMA, almannavarna Bandaríkjanna, í gær. Stjórnvöld á Púertó Ríkó, sem er bandarískt yfirráðasvæði, segjast ekki hafa verið látin vita af ákvörðuninni fyrirfram. Hún sé jafnframt ekki sammála henni, að því er segir í frétt Washington Post.

Stjórnendur FEMA segja að stofnunin ætli að fela yfirvöldum á eyjunni og hjálparsamtökum þau neyðargögn sem eftir eru. Nú snúist aðstoðin ekki lengur um neyðarviðbrögð heldur endurreisn. Vísar stofnunin til þess að matvöruverslanir og aðrar sem selja vistir hafi nú nóg af vörum. Þá hafi bankar, hraðbankar og bensínstöðvar tekið aftur til starfa.

Nálgast að vera „glæpsamleg vanræksla“

Luis Vega Ramos, þingmaður í fulltrúadeild þings Púertó Ríkó, segir að nauðsynjar skorti enn á sumum dreifbýlisstöðum. Þar skorti enn rafmagn til að hægt sé að sjá fólki fyrir vatni og halda nauðsynlegum lyfjum kældum.

„Það er enn brýn þörf fyrir mannúðaraðstoð. Það að hún komi ekki frá FEMA er í besta falli vanræksla og í versta falli nálgast það skuggalega að vera glæpsamleg vanræksla,“ segir þingmaðurinn.

Þá gagnrýnir Carmen Yulín Cruz, borgarstjóri San Juan, ákvörðun FEMA harðlega. Borgin bíði enn eftir fjármunum frá alríkisstjórn Bandaríkjanna vegna uppbyggingar og stopult raforkukerfi geri fyrirtækjum og einstaklingum erfitt fyrir að vinna.

„Það er ótrúlegt að þeir segjast vilja hjálpa efnahaginum en hvað á fólk að nota til að kaupa mat? Bitcoin? Ef rafmagnið er ekki nógu stöðugt þýðir það að atvinnuöryggi er ekki nógu stöðugt,“ segir Cruz.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×