Erlent

Ákæra á hendur Madsen birt: Batt Kim Wall fasta og drap

Atli Ísleifsson skrifar
Peter Madsen er í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa banað Wall.
Peter Madsen er í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa banað Wall. Vísir/AFP

Saksóknarar í Danmörku hafa opinberað ákæruna á hendur danska uppfinningamanninum Peter Madsen sem grunaður er um morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall.

Í frétt DR kemur fram að í ákærunni segi að Madsen hafi beitt Wall ofbeldi og svo ráðið henni bana. Saksóknarar meina að Madsen hafi jafnframt bundið hana fasta í kafbátnum.

Madsen á að hafa skipulagt morðið fyrirfram þar sem hann hafi tekið með sér sög, hníf, skrúfjárn, reipi, plastbensli og járnrör um borð í kafbátinn. Á morðið að hafa átt sér stað einhvern tímann á bilinu 22 að kvöldi 10. ágúst síðastliðinn til 10 að morgni 11. ágúst.

Vanvirti lík Wall

Madsen er ákærður fyrir drápið á Kim Wall, að vanvirða lík hennar með því að búta það niður og binda líkamspartana við járnrör og koma þeim þannig fyrir á hafsbotni. Þá er hann einnig ákærður fyrir kynferðisbrot, en hann á samkvæmt ákæruvaldinu að hafa stungið Wall ítrekað í grindarholið.

Peter Madsen situr nú í gæsluvarðhaldi en aðalmeðferð í málinu hefst þann 8. mars og er búist er við að dómsuppkvaðning verði þann 25. apríl.

Madsen hafði boðið Wall í ferð í heimasmíðuðum kafbát hans, en Wall hugðist skrifa um eigandann og kafbátinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×