Erlent

Verja franskan ráðherra sem sakaður er um nauðgun

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 35 ára Gérald Darmanin hefur verið álitinn ein af vonarstjörnunum í ríkisstjórn Emmanuel Macron forseta.
Hinn 35 ára Gérald Darmanin hefur verið álitinn ein af vonarstjörnunum í ríkisstjórn Emmanuel Macron forseta. Vísir/AFP

Nokkrir ráðherrar í frönsku ríkisstjórninni hafa lýst yfir stuðningi við fjárlagaráðherrann Gérald Darmanin sem sakaður hefur verið um nauðgun sem á að hafa átt sér stað fyrir tíu árum síðan.



Forsætisráðherrann Édouard Philippe hefur sagt að Darmanin njóti enn stuðnings innan stjórnarinnar og hefur dómsmálaráðherrann Nicole Belloubet hafnað kröfum um að hann segi af sér. Ráðherrann hafi ekki verið ákærður fyrir brot.



Landbúnaðarráðherrann Stéphane Travert segir að grundvallarreglan um að menn séu saklausir uns sekt sé sönnuð eigi einnig að gilda í tilviki Darmanin.



Saksóknarar í París hafa staðfest að málið hafi nú verið tekið til rannsóknar á ný. Darmanin er sakaður um að hafa þvingað konu til samræðis í skiptum fyrir að hann myndi hreinsa nafn hennar í dómsmáli.



Ítrekaði ásakanirnar

Konan sem sakar Darmanin um nauðgun er 46 ára og starfaði áður við vændi. Hún sakaði ráðherrann fyrst um nauðgunina um mitt síðasta ár. Rannsókn lögreglu var hins vegar lögð til hliðar eftir að konan mætti ekki til skýrslutöku hjá lögreglu. Fyrr í þessum mánuði steig hún svo aftur fram og ítrekaði ásakanirnar. Árásin á að hafa átt sér stað árið 2009.



Lögfræðingur Darmanin segir að konunni komi til með að verða stefnt fyrir meiðyrði. Hinn 35 ára Darmanin hefur verið álitinn ein af vonarstjörnunum í ríkisstjórn Emmanuel Macron forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×