Erlent

Veittu Assange ríkisborgararétt

Samúel Karl Ólason skrifar
Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna komst að þeirri niðurstöðu í byrjun árs 2016 að vera Assange í sendiráðinu jafnaðist á við ólöglega fangelsun.
Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna komst að þeirri niðurstöðu í byrjun árs 2016 að vera Assange í sendiráðinu jafnaðist á við ólöglega fangelsun. Vísir/AFP
Stjórnvöld Ekvador hafa veitt Julian Assange, stofnanda Wikileaks, ríkisborgararétt. Það var gert þann tólfta desember og í framhaldi af því báðu Ekvadorar Breta um að samþykkja Assange sem erindreka ríkisins svo hann gæti yfirgefið sendiráð Ekvador í London án þess að vera handtekinn. Bretar neituðu því þann 21. desember, einum degi eftir að beiðnin var lögð fram.

Ekvadorar leita nú leiða til að koma Assange úr sendiráðinu og segja hann ekki geta búið þar til lengdar.



Fyrrverandi forseti Ekvador, Rafael Correa, veitti Assange hæli í sendiráðinu árið 2012 svo hann yrði ekki framseldur til Svíþjóðar þar sem hann hafði verið ákærður fyrir kynferðisbrot og þar á meðal nauðgun. Ákæran var felld niður í fyrra en Assange á enn von á því að vera handtekinn fyrir að brjóta gegn lausnartryggingu í Bretlandi og mæta ekki fyrir dómara þegar hann var boðaður.

Hann óttast að verða framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann á yfir höfði sér langan fangelsisdóm.

Maria Fernanda Espinosa, utanríkisráðherra Ekvador, sagði að ekki yrði frekari skref tekin til að reyna að gera Assange að erindreka vegna þessa góða sambands sem Ekvador á við Bretland.

Í tilkynningu frá Utanríkisráðuneyti Bretlands segir að „Ekvador viti að leiðin til að leysa þetta mál sé að Julian Assange yfirgefi sendiráðið“. Þá gæti málið farið rétta leið í gegnum dómsmálakerfi Bretlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×