Erlent

Skoða leiðir til að koma Assange úr sendiráðinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna komst að þeirri niðurstöðu í byrjun árs 2016 að vera Assange í sendiráðinu jafnaðist á við ólöglega fangelsun.
Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna komst að þeirri niðurstöðu í byrjun árs 2016 að vera Assange í sendiráðinu jafnaðist á við ólöglega fangelsun. Vísir/AFP
Yfirvöld Ekvador segja að vera Julian Assange í sendiráði þeirra í London geti ekki varað til lengdar. Hann hefur nú þegar haldið þar til í fimm og hálft ár. Utanríkisráðuneyti Ekvador segir að leita eigi til alþjóðlegra aðila til að leita lausna á málinu.

Fyrrverandi forseti Ekvador, Rafael Correa, veitti Assange hæli í sendiráðinu árið 2012 svo hann yrði ekki framseldur til Svíþjóðar þar sem hann hafði verið ákærður fyrir kynferðisbrot og þar á meðal nauðgun. Ákæran var felld niður í fyrra en Assange á enn von á því að vera handtekinn fyrir að brjóta gegn lausnartryggingu í Bretlandi og mæta ekki fyrir dómara þegar hann var boðaður.

Hann óttast að verða framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann á yfir höfði sér langan fangelsisdóm.

„Engin lausn mun finnast án alþjóðlegar samvinnu og samvinnu Bretlands, sem hefur einnig lýst yfir áhuga á að finna lausn,“ sagði María Fernanda Espinosa, utanríkisráðherra Ekvador í dag.



Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna komst að þeirri niðurstöðu í byrjun árs 2016 að vera Assange í sendiráðinu jafnaðist á við ólöglega fangelsun.

Sjá einnig: Segja Assange í fangelsi án dóms og laga



Julian Assange, sem er 46 ára gamall og frá Ástralíu, stofnaði Wikileaks árið árið 2006. Samtökin birtu meðal annars leynileg gögn nafnlausra heimildarmanna. Samtökin urðu heimsfræg fyrir að birta gögn frá bandaríska hermanninum Bradley Manning árið 2010. Manning hefur verið dæmdur í 35 ára fangelsi fyrir að leka leynigögnum til Wikileaks.

Nú undanfarið er hann hvað þekktastur vegna leka tölvupósta frá landsnefnd Demókrataflokksins í Bandaríkjunum fyrir forsetakosningarnar í fyrra. Tölvupóstunum var stolið af tölvuþrjótum á vegum rússneska ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×