Viðskipti erlent

Costco hefur áhyggjur af loftslagsbreytingum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikil röð var fyrstu dagana fyrir utan verslun Costco í Kauptúni.
Mikil röð var fyrstu dagana fyrir utan verslun Costco í Kauptúni. Vísir/eyþór
Forsvarsmenn bandaríska verslunarrisans Costco hafa áhyggjur að því að loftslagsbreytingar geti haft neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækisins, bæði vegna þeirra breytinga sem þær geta haft í för með sér sem og vegna hugsanlegra aðgerða yfirvalda til að stemma í stigu við slíkar breytingar.

Þetta kemur fram í árskýrslu Costco fyrir árið 2017 þar sem áhættuþættir í rekstri verslunarrisans eru taldir upp. Þar segir að ýmsir þættir í tengslum við loftslagsbreytingar geti haft slæm áhrif á rekstur versluna Costco.

Talin eru upp nokkur dæmi um neikvæð áhrif lofstslagsbreytinga, meðal annars það að gas, díselolíu, bensín og rafmagn spili stóran þátt í  dreifingu á vörum og rekstri verslana fyrirtækisins. Mögulegt sé að yfirvöld í Bandaríkjunum eða annars staðar í heiminum þar sem Costco rekur verslanir geti gripið til aðgerða til þess að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Þetta geti þýtt að kostnaður Costco við að fara eftir lögum og reglum, svokallaður hlýðnikostnaður, geti aukist sem og að slíkar aðgerðir yfirvalda geti aukið orkukostnað fyrirtækisins. Gangi þetta eftir geti það haft neikvæð áhrif á arðsemi Costco.

Þá segir einnig að eftirspurn eftir olíu og bensíni, sem fyrirtækið selur í miklu magni, geti dregist saman vegna aðgerða yfirvalda í tengslum við loftslagsbreytingar.

Telja forsvarsmenn Costco einnig að loftslagsbreytingar geti haft áhrif á getu fyrirtækisins til þess að útvega viðskiptavinum vörutegundir í því magni og á því verði sem fyrirtækið er vant. Þá hefur fyrirtækið einnig áhyggjur af veðurfarslegum breytingum í tengslum við loftslagsbreytingar og eru kraftmeiri fellibyljir, skýstrókar og hækkandi sjávarmál nefnd sem dæmi um þá ógn sem Costco gæti þurft að standa frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga.

Costco opnaði sem kunnugt er verslun hér á landi á síðasta ári. Alls rekur fyrirtækið 741 verslun víðs vegar um heiminn, flestar í Bandaríkjunum. Fyrirtækið stefnir á að opna fimm nýjar verslanir á árinu sem er nýhafið, fjórar í Bandaríkjunum og eina í Kanada.


Tengdar fréttir

Innkoma Costco viðskipti ársins

Koma bandaríska verslunarrisans Costco hingað til lands er viðskipti ársins að mati dómnefndar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Costco er sagt hafa breytt landslaginu í íslenskri verslun og hrist verulega upp í smásölumarkaðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×