Körfubolti

Matthías Orri: Borce getur ekki kvartað neitt

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Matthías Orri Sigurðarson.
Matthías Orri Sigurðarson. Vísir/Anton
ÍR vann mikilvægan sigur í 12. umferð Domino’s deildar karla í körfuknattleik í kvöld þegar að liðið tók á móti Tindastól í Hertz hellinum í Seljaskóla. Lokatölur 85-73.

ÍR byrjar því nýtt ár vel og gefur ekkert eftir í toppbaráttunni. Liðið er með 18 stig, jafn mörg og KR sem tróna á toppi deildarinnar.

 

Leikstjórnandi ÍR, Matthías Orri Sigurðarson, var að öðrum ólastaður besti maður leiksins. Var hann að vonum sáttur í leikslok.

„Ég er mjög sáttur. Fyrir utan smá kafla í öðrum leikhluta stjórnuðum við leiknum allan tímann. Við keyrðum síðan á þá í þriðja leikhluta og spiluðum frábæran körfubolta. Það er mjög sætt að vinna sterkt lið eins og Tindastól í fyrsta leik ársins,“ sagði Matthías.

Matthías er bjartsýnn fyrir komandi leiki og vanmetur hann ekki botnlið Hattar.

„Mér líst vel á næstu leiki og leikinn gegn Hetti á Egilstöðum næsta sunnudag. Það er samt alls ekki auðvelt að spila þar. Stjarnan er að ég held eina liðið sem hefur unnið stóran sigur þar,“ sagði Matthías.

Að lokum var Matthías spurður af hverju Borce Ilievski, þjálfari ÍR, sagðist hafa verið óanægður með sitt lið í jólafríinu.

„Hann var eitthvað pirraður með það hvernig við vorum að æfa, þú veist hvernig þessir austur evrópumenn eru. Það er bara harkan sex og ekkert gefið eftir,“ sagði Matthías og glotti.

„Við ákváðum fyrir leikinn sem lið að sýna að við eigum skilið að vera við topp deildarinnar. Komum vel gíraðir í leikinn og í hörku formi, þannig að Borce getur ekki kvartað neitt,“ sagði Matthías.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×