Umfjöllun: Þýskaland - Ísland 36-29 | Evrópumeistararnir reyndust alltof sterkir

Benedikt Grétarsson skrifar
Geir Sveinsson talar hér við strákana sína.
Geir Sveinsson talar hér við strákana sína. Vísir/Eyþór
Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði gegn Evrópumeisturum Þýskalands, 36-29 en liðin mættust í vináttulandsleik í Stuttgart í dag. Staðan í hálfleik var 19-12, Þjóðverjum i vil.

Ólafur Guðmundsson skoraði átta mörk fyrir Ísland og fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson skoruðu fimm mörk hvor. Guðjóni Val vantar nú aðeins tvö mörk í viðbót til að verða markahæsti landsliðsmaður í sögu handboltans. Markverðir liðsins áttu erfiðan dag á bak við hripleka vörn Íslands en Ágúst Elí Björgvinsson varði fimm skot og Björgvin Páll Gústavsson varði þrjú skot.

Liðin mætast aftur á sunnudaginn og það verður síðasti leikur landsliðsins fyrir Evrópumótið sem hefst í Króatíu 12.janúar.

Leikurinn byrjaði vel hjá íslenska liðinu og strákarnir komust í 6-8. Þá tóku Þjóðverjar leikhlé og seinni hluta fyrri hálfleiksins unnu heimamenn 13-4 og héldu því til búningsherbergja með sjö marka forystu.

Seinni hálfleikur var eltingarleikur hjá Íslandi en sterkt lið Þjóðverja var aldrei að fara að missa niður slíkt forskot á heimavelli. Þrátt fyrir ágæta spretti, áttu Evrópumeistararnir alltaf svar við aðgerðum íslensku strákana. Íslenska liðið virkaði þreytt en það ber að hafa í huga að liðið lék gegn Japan á miðvikudaginn og ferðaðist síðan til Þýskalands í gær.

Engu að síður vantaði neista og strákarnir geta mun betur en það sem þeir sýndu í Stuttgart í dag. Nú er bara að safna vopnum og berja duglega á Þjóðverjum á sunnudaginn.

Af hverju vann Þýskaland leikinn?

Líklega má viðurkenna það að Þjóðverjar eru einfaldlega með sterkara lið en Ísland í augnablikinu. Þeir voru örlítinn tíma að lesa sóknarleik íslenska liðins og síðan fór þýska vélin að malla þægilega. Á sama tíma fór varnarleikur Íslands að missa taktinn og mörkunum hreinlega rigndi. Sjö marka munur á útivelli eftir 30 mínútna leik gegn Evrópumeisturunum, er bara of mikið.

Hverjir stóðu upp úr?

Ólafur Guðmundsson var að reyna allan leikinn og var mjög ógnandi í sókninni. Hann var þó í vandræðum varnarlega, rétt eins og allir leikmenn liðsins. Arnar Freyr Arnarsson lék af krafti í sókninni, skoraði fjögur góð mörk og fiskaði nokkur víti. Nánast allar heppnaðar sóknir liðsins hefjast svo vitanlega í höndum Arons Pálmarssonar, sem náði sér þó ekki almennilega á strik.

Hvað gekk illa?

Það gekk á löngum stundum afskaplega illa að fá sanngjarna dómgæslu í fyrri hálfleik. Svissneskir dómarar leiksins dæmdu oft furðulega og sýndu heimamönnum full mikla virðingu. Þjóðverjar fengu afar ódýr vítaköst sem hinn öruggi Uwe Gensheimer nýtti auðvitað með prýði. Það er algjör óþarfi að gefa þessu liði Þýskalands einhverja forgjöf, þeir eru alveg nógu góðir til þess að vinna leiki án aðstoðar dómara. Þetta hafði þó alls ekki úrslitaáhrif á úrslit leiksins.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast aftur á sunnudaginn klukkan 13:00. Strákarnir verða að gera betur í þeim leik og fara með smá sjálfstraust á EM. Það er kannski full mikið að heimta útisigur gegn Evrópumeisturunum en menn verða samt að gera betur. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Geir Sveinsson geri einhverjar áherslubreytingar í næsta leik.





x

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira