Enski boltinn

Slæmar fréttir fyrir Juventus en miklu betri fréttir fyrir Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paulo Dybala.
Paulo Dybala. Vísir/Getty
Argentínumaðurinn Paulo Dybala meiddist um helgina og óttast menn hjá Juventus að hann gæti verið frá í 40 til 45 daga.

Ítalska blaðið Tuttosport segir frá því að fyrstu rannsóknir bendi til þess að tognun Dybala þýði að hann verði ekki með liðinu fyrr en í kringum 20. febrúar næstkomandi.

Juventus sendi frá sér tilkynningu þar sem menn segja að þetta sé ekki mikil tognun hjá Paulo Dybala en að þeir þurfi að bíða í nokkra daga til að sjá betur hversu alvarleg hún er.

Það er samt nánast öruggt að Dybala missi af fyrri leiknum á móti Tottenham í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar sem fer fram 13. febrúar. Hann ætti hinsvegar að ná seinni leiknum sem fer fram 7. mars.

Þetta eru slæmar fréttir fyrir Juventus enda auðveldara fyrir Tottenham menn að þurfa ekki að hafa áhyggjur af þessum öfluga leikmanni.

Paulo Dybala hefur skorað 14 mörk í 19 leikjum í ítölsku deildinni á þessu tímabili. Hann á aftur á móti enn eftir að skora í Meistaradeildinni.

Dybala missir væntanlega líka af deildarleikjum á móti Genoa, Chievo, Sassuolo, Fiorentina og Torino sem og bikarleik á móti Atalanta.

Fyrsti leikurinn hans eftir meiðslin gæti verið á móti Atalanta 25. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×